Það er óhætt að segja að netheimar hafi logað eftir að greint var frá því að tónlistarkonan Svala Björgvins væri gengin út.
Fréttablaðið greindi frá sambandi Svölu og Alexanders Alexanderssonar í gær, en parið hefur verið að stinga saman nefjum í um það bil þrjár vikur og eru komin á fast, að eigin sögn.
Fólk virðist hafa miklar skoðanir á málinu og skrifuðu margir athugasemd við fréttina. Svala sá sig knúna til þess að svara að minnsta kosti einni athugasemd sem henni þótti óviðeigandi.
Facebook notandi skrifaði athugasemdina: „Vonandi ekki annar dópsali, en það er þó alltaf betra að fá dópið frítt.“
Þá svarar Svala pent: „Elsku þú. Rosalega ertu óviðeigandi! Ég hef aldrei á ævi minni tekið eiturlyf og ég drekk ekki einu sinni áfengi, vonandi líður þér vel að tala svona um persónu sem þú þekkir ekki neitt. Sendi þér faðmlag því þú þarft greinilega á því að halda.“
Athugasemd Svölu hefur vakið mikil viðbrögð en hátt í fimm hundruð manns hafa brugðist við henni.

