Það hefur verið reynt að endurvekja þetta félag áður en ekki tekist sem skyldi. Eftir sameiningu sveitarfélaganna skapaðist tækifæri og með tilkomu samfélagsmiðla sáum við að þetta gæti orðið bráðskemmtilegt verkefni,“ segir Bergný Jóna Sævarsdóttir um Hattavinafélag Suðurnesjabæjar og fyrsta hattadaginn sem haldinn var í bænum á föstudaginn.

Bergný Jóna skellihlær þegar hún leggur áherslu á að bæjarbúar séu mikið fyrir hatta þannig að það var síður en svo út í bláinn að hún ákvað, ásamt nokkrum öðrum, að endurvekja Hattavinafélag Sandgerðis sem sló í gegn um aldamótin þegar flestir ef ekki allir Sandgerðingar settu upp hatt á föstudögum.

Í minningu fallins félaga

Hattavinafélag Sandgerðis þótti á sínum tíma býsna öflugt, jafnvel á landsvísu, og í anda þess eru íbúar Suðurnesjabæjar, sem áður skiptist í Sandgerði og Garð, hvattir til þess að setja upp hatta á föstudögum.

Fyrsti hattadagurinn var á föstudaginn og óhætt að segja að endurnýjun félagsins hafi byrjað vel þegar fjölmargir núverandi og brottfluttir íbúar sveitarfélagsins svöruðu kallinu og settu upp hatta og önnur höfuðföt í tilefni dagsins.

Bergný Jóna segir að Guðjón Kristjánsson, sem er nýlátinn, hafi verið forsprakki þess að endurvekja félagið enda með puttana á menningarpúlsinum í Sandgerðisbæ. „Þegar hann lést á síðasta ári þá eiginlega hét ég því að klára þetta verkefni og koma þessu í gang. Það er verið að heiðra minningu hans með að rífa félagið í gang og koma því af stað.“

Bergný og Fríða Stefánsdóttir eru framarlega í endurreisnarhópnum.

Höttum lyft um allan heim

Hún segir viðbrögðin hafa verið góð og höfuð margra bæjarbúa hafi verið vel skreytt á föstudaginn. „Það er fólk um allan heim að senda okkur myndir og vill vera með þannig það gengur ekki að hafa í reglunum að lögheimilið þurfi að vera í Suðurnesjabæ. Þetta er líka skemmtilegt tækifæri fyrir nýtt sameinað sveitafélag að taka þetta verkefni upp,“ segir Bjargný um niðurfellingu á þeirri kvöð að meðlimir Hattavinafélagsins þyrftu að hafa heimilisfesti í Sandgerði.

Forsendur hafi breyst með tilkomu samfélagsmiðla og félagið teygi sig nú langt út fyrir landsteinanna og reglan hafi verið endurskrifuð með tilliti til þess. Félagið hefur því eðli málsins samkvæmt haslað sér völl á Facebook og Instagram þar sem meðlimum fjölgaði stöðugt allan hattaföstudaginn.

Fundað á fullu tungli

„Það er gert ráð fyrir því í reglunum að aðalfundur skuli vera haldinn á næsta fulla tungli þannig að við stefnum á að nýjar reglur verði settar í loftið þá. Markmiðið er að þetta á að vera óþvingað og bara svolítið skemmtilegt.“

Höfuðfötin sem voru á lofti á föstudaginn voru mörg hver glæsileg og myndu hæfa fylgdarliði drottningar á hvaða veðreiðum sem er. Bergný bendir þó á að þetta hafi verið fyrsti hattadagurinn og því eigi margir glæsilegir hattar eftir að koma út úr skápnum.

„Við hlökkum mikið til sumarsins. Sagan segir að fólk sem hafi verið í upprunalega félaginu hafi átt hattahillur heima hjá sér fyrir sína helstu dýrgripi. Við vonum að það verði áfram.“

Hún segist eiga eftir að kanna hvort hattavinafélög leynist víðar á Íslandi og hún vonist að sjálfsögðu til þess að komast í samband við fleiri systurfélög. „Vonandi er hattavinafélagið til á Húsavík ennþá. Gamla félagið er stofnað út frá heimsókn þangað. Ég viðurkenni alveg að ég bind miklar vonir við þetta. Skemmtilegir viðburðir og annað í kjölfarið og við erum bara rétt að byrja,“ segir Bergný.