Lífið

Súrsaðar gúrkur og gervi­ostur á Costco-óska­listanum

Costco á Ís­landi er stjórnað frá Bret­landi og vöru­úr­valið ber þess merki. Glaða Costco-fólkið bíður nú hins vegar í of­væni eftir gámum frá Banda­ríkjunum og birta óskir sínar um nýjar vörur í gríð og erg á Face­book.

Káta Costco-fólkið lætur sig meðal annars dreyma um Ruffles-flögur, vanillu kók og Trix.

Vöruúrvalið í Costco í Kauptúni dregur dám af því að versluninni er stjórnað frá Bretlandi og heldur hefur áköfum viðskiptavinum þótt skorta á allt það ameríska góss sem er í boði hjá verslunarkeðjunni í Bandaríkjunum.

Þetta kann þó að vera að breytast en Engilbert Arnar, einn umsjónarmanna Facebook-hópsins Costco-gleði, tilkynnti þar nýlega að „Costco er nefnilega að vinna í því að koma með gáma til landsins frá Ameríku.“

Sjá einnig: Káta Costco-fólkið vonar að risinn fylgist með þeim

Hann spáir því að þetta muni gera Costco „enn betri og skemmtilegri,“ enda sé löngu kominn tími á fleiri amerískar vörur.

Súrsuðu gúrkurnar frá Vlasic þykja ómissandi á einhverjum heimilum og vonir standa til að Costco bregðist við þeirri þörf.

Glaða Costco-fólkið hefur áður fundið fyrir því að verslunarkeðjan hefur gætur á Facebook-hópnum og til eru dæmi um að óskir sem þar hafa verið settar fram hafi ræst skömmu síðar.

Og nú er lag, eftir því sem Engilbert segir, en hann hvetur meðlimi til þess að birta óskir sínar um bandarískar vörur, með myndum, í athugasemdakerfi síðunnar.

„Það er þegar búið að senda yfir 300 myndir/hugmyndir að vörum sem komu frá þessari grúppu og svo er bara spurning hvaða vörur birtast í búðinni?“ Hann slær síðan þann varnagla að vitaskuld „geta þeir ekki komið með allar vörurnar sem beðið er um en þetta er tækifærið ykkar.“

Þeir vita sem reynt hafa að grillaðar samlokur verða varla betri en þegar bráðnaður Velveeta-ostur leynist á milli brauðsneiðanna.

Meðal þess sem komið er á langan óskalista Costco-fólksins er Coca Cola með vanillubragði, hvítt Kit Kat-súkkulaði, gerviosturinn Velveeta sem fer sérlega vel með makkarónum og á heitar skinkusamlokur, litskrúðuga morgunkornið Trix, Ruffles-kartöfluflögur, Cheez-it smákex, Cheetos-snakk, súrsaðar gúrkur frá Vlasic, M&M með hnetusmjöri, Cauliflower Crust-pizzur, Carters barnaföt, Pro Complete-tannkrem, Kens Honey Mustard-sósa, Tide þvottaduft, mótorhjóladekk og Kirkland-beyglur.

Svona mætti lengi telja áfram og óskirnar eru margar og spennan eftir því að sjá hverjar þeirra munu rætast magnast með hverjum degi.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Fólk

Káta Costco-fólkið vonar að risinn fylgist með þeim

Fólk

Ó­­­­­kunnugur færði Skaga­konu WC-pappír úr Costco

Lífið

Katta­hungur­verk­fall í Búðar­dal: „Við viljum Kirk­land!“

Auglýsing

Nýjast

Kostnaður af lélegri svefnheilsu á við nýtt sjúkrahús

Þörf fyrir fræðslu um svefn í skólum

Skúli Mogen­sen og Gríma Björg á Sálna­safni

Breyting á klukku myndi bæta svefn

Fimm hlutu Fjöru­verð­launin í Höfða

Kitla Ari­önu fyrir nýjasta lagið vekur blendin við­brögð

Auglýsing