Skáldið Brynja Hjálmsdóttir sendi á dögunum frá sér leikritið Ókyrrð sem kemur út á bók á vegum Unu útgáfuhúss. Ókyrrð er í senn elsta og yngsta verk Brynju en hún skrifaði það fyrir fimm árum.
„Mig langaði að skrifa leikrit í fullri lengd og ég hafði til að byrja með óljósa hugmynd að plotti en einhvers konar hugmynd um persónur. Ég byrjaði að skrifa dálítið mikið út í bláinn, vissi rosa lítið um hvað verkið var og hvað myndi gerast, þannig að ferlið var að stórum hluta að komast að því hvað innihaldið væri. Það var langt og skemmtilegt ferli en líka erfitt að mörgu leyti,“ segir Brynja um tilurð verksins.
Klassískur rammi
Ókyrrð gerist í flugvél og segir frá mæðgunum Svanhvíti, sem er flugþjónn vélarinnar, og Svanhildi, sem er flugstjóri. Inn í söguna blandast svo tveir farþegar, Kría og Gaukur. Um er að ræða klassískan leikritaramma, verk í þremur leikþáttum, með fjórar persónur, sem gerist á einum stað og einum tíma en verkið sjálft sver sig í ætt við súrrealismann og leikhús fáránleikans.
„Fyrsta grunnhugmyndin var bara hvað ef það væri flugvél sem hefði engan áfangastað. Flug sem er ekki á leiðinni neitt. Þetta endaði kannski ekki beinlínis þar en ég hugsaði þetta fyrst sem alveg mjög súrrealískt stykki. Dálítið innblásið af Luis Buñuel, absúrd aðstæður sem er óskiljanlegt hvernig persónurnar lentu í. Svo fór þetta kannski inn í aðeins meiri klassík. Ég held að þegar allt kemur til alls sé maður alltaf að skrifa leikrit um persónur og þegar þær koma þá breytist allt,“ segir Brynja.

Andstæðar en samhuga erkitýpur
Varð framvinda verksins til út frá persónunum?
„Já, ég held það. Það var eitthvað sem ég þurfti að læra. Ég var dálítið að reyna að manipúlera persónurnar fyrst en síðan birtust þær. Þetta er svona hin sígilda dýnamík á milli mæðgnanna. Móðirin á erfitt með að sleppa tökunum og dóttirin þráir að fljúga úr hreiðrinu. Síðan einmitt eru utanaðkomandi öfl sem eru farþegarnir í vélinni sem hafa líka skoðanir á einhverri svona lífsspeki sem maður ætti að temja sér í lífinu. Því það eru svo margir kostir og svo margar leiðir til að velja og það getur verið yfirþyrmandi.“
Í verkinu birtast tvær erkitýpur í formi farþeganna. Gaukur, hinn ofurandlegi hippi, og Kría, beinskeytta bissnesskonan, sem þrátt fyrir að vera andstæður í grunninn eru ekkert svo ólík undir yfirborðinu.
„Fyrir mér eru þetta vissulega svona tvær erkitýpur. Gaukur talar dálítið mikið um það að gefa sig á vald einhverju öðru, einhverjum yfirskilvitlegum og andlegum kennisetningum, á meðan Kría talar rosa mikið um að taka stjórnina, og ekki missa hana, þannig eigi maður gott líf. Síðan þegar allt kemur til alls þá eru þetta ekkert endilega svo ósvipaðar persónur. Þær gefa sig út fyrir að vilja hjálpa en svo er spurning hvort þær séu kannski bara að hjálpa sjálfum sér,“ segir Brynja.
Að gefa leikrit út á bók áður en það hefur verið sett upp á sviði er nokkuð óvenjulegt. Spurð um hvernig það hafi komið til segir Brynja:
„Við erum kannski að fara einhvern veginn aftur á bak því einu sinni tíðkaðist að gefa leikrit út fyrst á bók og setja þau síðan upp. En þetta var bara einhver skrýtin hugmynd sem útgefandinn minn fékk, hann langaði að gefa út bók utan jólavertíðarinnar, tilraunakenndara verk. Þetta er í raun og veru dálítil tilraun, svo sjáum við bara hvernig hún heppnast,“ segir Brynja og hlær.
Heldurðu að við fáum að sjá Ókyrrð á sviði einhvern tíma?
„Það væri náttúrlega bara reglulega skemmtilegt. Því auðvitað er handritið ekki verkið, það er bara einn þáttur af verkinu, þannig að þetta er í eðli sínu einhvers konar verk í vinnslu. Það væri rosa spennandi ef það heldur áfram og öðlast nýtt líf.“
Veröldin er svo skrýtin og stundum er absúrdismi og afbökun einhvern veginn sannari miðlun á henni.
Absúrdismi og afbökun
Þrátt fyrir að verkið hafi verið skrifað fyrir hálfum áratug er frásagnarrammi þess nokkuð kunnuglegur því verkið gerist á tímum þegar fuglaflensufaraldur geisar í heiminum.
„Þetta er eitthvað sem ég skrifaði fyrir fimm, sex árum, löngu áður en faraldurinn varð eitthvað raunverulegur. En þetta er í raun og veru bara tilviljun og skiptir ekkert miklu máli fyrir söguþráðinn. Aðallega skrifaði ég þetta sem einhverja afsökun fyrir því að það væru svona fáir í vélinni. Þetta var bara svona rammi og líka kannski eitthvað sem mér fannst vera absúrd og óhugsandi en kom síðan í ljós að var alls ekki óhugsandi.“
Þannig að þú hefur næstum því reynst sannspá um faraldurinn?
„Kannski er þetta bara sönnun á því sem ég hef sagt, að súrrealisminn er stundum raunverulegri en raunsæið. Veröldin er svo skrýtin og stundum er absúrdismi og afbökun einhvern veginn sannari miðlun á henni.“