Skáldið Brynja Hjálms­dóttir sendi á dögunum frá sér leik­ritið Ó­kyrrð sem kemur út á bók á vegum Unu út­gáfu­húss. Ó­kyrrð er í senn elsta og yngsta verk Brynju en hún skrifaði það fyrir fimm árum.

„Mig langaði að skrifa leik­rit í fullri lengd og ég hafði til að byrja með ó­ljósa hug­mynd að plotti en ein­hvers konar hug­mynd um per­sónur. Ég byrjaði að skrifa dá­lítið mikið út í bláinn, vissi rosa lítið um hvað verkið var og hvað myndi gerast, þannig að ferlið var að stórum hluta að komast að því hvað inni­haldið væri. Það var langt og skemmti­legt ferli en líka erfitt að mörgu leyti,“ segir Brynja um til­urð verksins.

Klassískur rammi

Ó­kyrrð gerist í flug­vél og segir frá mæðgunum Svan­hvíti, sem er flug­þjónn vélarinnar, og Svan­hildi, sem er flug­stjóri. Inn í söguna blandast svo tveir far­þegar, Kría og Gaukur. Um er að ræða klassískan leik­­rita­ramma, verk í þremur leik­þáttum, með fjórar per­sónur, sem gerist á einum stað og einum tíma en verkið sjálft sver sig í ætt við súrreal­ismann og leik­hús fá­rán­leikans.

„Fyrsta grunn­hug­myndin var bara hvað ef það væri flug­vél sem hefði engan á­fanga­stað. Flug sem er ekki á leiðinni neitt. Þetta endaði kannski ekki bein­línis þar en ég hugsaði þetta fyrst sem alveg mjög súrrealískt stykki. Dá­lítið inn­blásið af Luis Buñuel, absúrd að­stæður sem er ó­skiljan­legt hvernig per­sónurnar lentu í. Svo fór þetta kannski inn í að­eins meiri klassík. Ég held að þegar allt kemur til alls sé maður alltaf að skrifa leik­rit um per­sónur og þegar þær koma þá breytist allt,“ segir Brynja.

Ókyrrð er fyrsta leikrit Brynju Hjálmsdóttur.
Kápa/Una útgáfuhús

And­stæðar en sam­huga erki­týpur

Varð fram­vinda verksins til út frá per­sónunum?

„Já, ég held það. Það var eitt­hvað sem ég þurfti að læra. Ég var dá­lítið að reyna að manipúlera per­sónurnar fyrst en síðan birtust þær. Þetta er svona hin sí­gilda dýnamík á milli mæðgnanna. Móðirin á erfitt með að sleppa tökunum og dóttirin þráir að fljúga úr hreiðrinu. Síðan ein­mitt eru utan­að­komandi öfl sem eru far­þegarnir í vélinni sem hafa líka skoðanir á ein­hverri svona lífs­speki sem maður ætti að temja sér í lífinu. Því það eru svo margir kostir og svo margar leiðir til að velja og það getur verið yfir­þyrmandi.“

Í verkinu birtast tvær erki­týpur í formi far­þeganna. Gaukur, hinn ofur­and­legi hippi, og Kría, bein­skeytta biss­ness­konan, sem þrátt fyrir að vera and­stæður í grunninn eru ekkert svo ólík undir yfir­borðinu.

„Fyrir mér eru þetta vissu­lega svona tvær erki­týpur. Gaukur talar dá­lítið mikið um það að gefa sig á vald ein­hverju öðru, ein­hverjum yfir­skil­vit­legum og and­legum kenni­setningum, á meðan Kría talar rosa mikið um að taka stjórnina, og ekki missa hana, þannig eigi maður gott líf. Síðan þegar allt kemur til alls þá eru þetta ekkert endi­lega svo ó­svipaðar per­sónur. Þær gefa sig út fyrir að vilja hjálpa en svo er spurning hvort þær séu kannski bara að hjálpa sjálfum sér,“ segir Brynja.

Að gefa leik­rit út á bók áður en það hefur verið sett upp á sviði er nokkuð ó­venju­legt. Spurð um hvernig það hafi komið til segir Brynja:

„Við erum kannski að fara ein­hvern veginn aftur á bak því einu sinni tíðkaðist að gefa leik­rit út fyrst á bók og setja þau síðan upp. En þetta var bara ein­hver skrýtin hug­mynd sem út­gefandinn minn fékk, hann langaði að gefa út bók utan jóla­ver­tíðarinnar, til­rauna­kenndara verk. Þetta er í raun og veru dá­lítil til­raun, svo sjáum við bara hvernig hún heppnast,“ segir Brynja og hlær.

Heldurðu að við fáum að sjá Ó­kyrrð á sviði ein­hvern tíma?

„Það væri náttúr­lega bara reglu­lega skemmti­legt. Því auð­vitað er hand­ritið ekki verkið, það er bara einn þáttur af verkinu, þannig að þetta er í eðli sínu ein­hvers konar verk í vinnslu. Það væri rosa spennandi ef það heldur á­fram og öðlast nýtt líf.“

Ver­öldin er svo skrýtin og stundum er absúrd­ismi og af­bökun ein­hvern veginn sannari miðlun á henni.

Absúrd­ismi og af­bökun

Þrátt fyrir að verkið hafi verið skrifað fyrir hálfum ára­tug er frá­sagnarra­mmi þess nokkuð kunnug­legur því verkið gerist á tímum þegar fugla­flensu­far­aldur geisar í heiminum.

„Þetta er eitt­hvað sem ég skrifaði fyrir fimm, sex árum, löngu áður en far­aldurinn varð eitt­hvað raun­veru­legur. En þetta er í raun og veru bara til­viljun og skiptir ekkert miklu máli fyrir sögu­þráðinn. Aðal­lega skrifaði ég þetta sem ein­hverja af­sökun fyrir því að það væru svona fáir í vélinni. Þetta var bara svona rammi og líka kannski eitt­hvað sem mér fannst vera absúrd og ó­hugsandi en kom síðan í ljós að var alls ekki ó­hugsandi.“

Þannig að þú hefur næstum því reynst sann­spá um far­aldurinn?

„Kannski er þetta bara sönnun á því sem ég hef sagt, að súrreal­isminn er stundum raun­veru­legri en raun­sæið. Ver­öldin er svo skrýtin og stundum er absúrd­ismi og af­bökun ein­hvern veginn sannari miðlun á henni.“