Elenora Rós hefur brennandi áhuga á bakstri og var smástelpa þegar hún ákvað að verða bakari og hefur að eigin sögn fengið að blómstra í faginu. Í lok síðasta árs gaf hún út bókina Bakað með Elenoru Rós sem flaug inn á metsölulista með glæsibrag.

Elenora Rós vinnur á Deig um helgar og er á samningi hjá Bláa lóninu samhliða náminu. Við máttum til að kasta fram þessari klassísku spurningu, kanntu brauð að baka? Og það stóð ekki að svari. „Já, heldur betur, eins hlédræg og ég get verið þá er þetta spurning sem ég get klárlega svarað játandi. Súrdeigbrauð er skemmtilegasta brauð sem ég baka og er súrdeigsbakstur algjörlega mín hugleiðsla. Ég hef unnið í nokkrum bakaríum þar sem mikið er lagt upp úr því að gera góð og flott brauð úr gæða hráefnum. Það var samt ekki fyrr en í COVID fyrir ári síðan sem ég fór á fullt í brauðbakstur. Mér finnst ekkert fallegra en góð, mjúk og bragðmikil brauð sem er búið að skera fallega í og hafa lyft sér vel. Ég vann besta brauðið í nemakeppninni í bakstri árið 2019 en þá bjó ég til súrdeigsbrauð með lakkrís og trönuberjum sem er eitt mest spennandi brauð sem ég hef búið til og slær alltaf í gegn. Ég gaf einnig út bók síðasta haust sem inniheldur allskyns skemmtileg brauð, rúgbrauð, beyglur, súrdeigsbrauð, focaccia, brauðrétti, samlokur og fleira.“

Súrdeigsbrauð með eplum og kanil.

Ást og tilfinningar bak við brauðin

Þegar kemur að því að spyrja Elenoru Rós hvort hún eigi sér sitt uppáhalds brauð og hvort einhver saga fylgi því á hún mjög erfitt með að gera upp á milli. „Ég átti svakalega erfitt með að gera upp á milli brauðanna minna. Það er alltaf saga, mikil ást og sterkar tilfinningar á bak við öll brauðin mín. Trönuberja- og lakkrísbrauðið mitt var til dæmis búið til fyrir fyrstu keppnina sem ég tók þátt í. Beikonsultubrauðið mitt var búið til rétt áður en COVID skall á og bakararnir í vinnunni minni hjálpuðu mér, sýndu mér tækni og aðferðir þegar ég var að búa það til. Ég elska að búa til öðruvísi brauð og koma fólki á óvart þegar bragðið á brauðinu leikur við bragðlaukana. En uppáhaldsbrauðið mitt þessa dagana er súrdeigsbrauð með eplum og kanil. Ég er sjúk í allt með eplum og kanil núna og hef sett það ofan á marengs, inn í snúða og núna ofan á brauð. Það er svo lokkandi að finna ilminn á meðan brauðið bakast og lygilega gott að fá sér brauðið heitt þannig smjörið bráðnar ofan í brauðið.“

Ylvolgt smjör ávallt best

Aðspurð segist Elenora Rós vilja njóta brauðsins til fulls án áleggs. „Án þess að hljóma ótrúleg klisjukennd þá er það rosalega misjafnt en mér finnst brauðið alltaf eiga að vera það gott að þú viljir njóta þess að finna bragðið af brauðinu en ekki stútfylla það með áleggi. Þegar ég til dæmis geri súrdeigsbrauð vil ég einungis borða það með smjöri, helst ylvolgt svo smjörið bráðni inn í brauðið. Ég geri yfirleitt súrdeigsbrauð með miklu og góðu bragði eins og með sesam og graslauk, chili og havarti osti, lakkrís og trönuberjum, beikonsultu eða epli og kanil. Þá finnst mér ég ekki þurfa mikið álegg. Annars finnst mér virkilega gott að fá mér ost og gúrku, pestó eða einhvers konar salat eins og ostasalat eða túnfisksalat á brauð. Ef ég er að fá mér hvítt franskbrauð er þó í miklu uppáhaldi að fá skólakæfu á brauðið mitt því þrátt fyrir að vera gömul sál þá er ég enn þá bara fimm ára í anda.“

Við fengum Elenoru Rós til að gefa uppskriftina að súrdeigsbrauðinu með eplum og kanil sem allir sælkerar eiga eftir að elska.

„Þegar ég til dæmis geri súrdeigsbrauð vil ég einungis borða það með smjöri, helst ylvolgt svo smjörið bráðni inn í brauðið,“ segir bakaraneminn.

Súrdeigsbrauð með eplum og kanil

500 g sterkt hveiti

400 g vatn

150 g súr

15 g salt

hálft epli

15 g kanill

Aðferð

 1. Sterku hveiti, vatni og súr blandað hægt saman í 12 mínútur með krók.
 2. Salti bætt saman við og hrært hratt í 3 mínútur.
 3. Deigið er látið standa í klukkustund með viskustykki yfir skálinni.
 4. Á meðan er gott að skera eplið niður í mjög smáa teninga.
 5. Þegar deigið hefur staðið í klukkustund er komið að því að toga og brjóta það í fyrsta skipti. Stráið eplunum og kanilnum yfir deigið, togið og brjótið deigið og látið eplin og kanilinn enda innan í deiginu.
 6. Síðan er deigið togað og brotið á hálftíma fresti í tvö skipti til viðbótar.
 7. Þegar deigið hefur verið togað og brotið í þrjú skipti fær deigið að hvíla í annan hálftíma í skálinni.
 8. Síðan er deigið sett á hveitistráð borð og léttmótað í litla kúlu.
 9. Deigið fær svo að standa með viskustykki yfir og hvíla á borðinu í hálftíma.
 10. Deigið er síðan fullmótað, sett í hveitistráða hefunarkörfu og inn á kæli yfir nóttina eða í a.m.k. 10-12 klukkutíma.
 11. Eftir nóttina er ofninn forhitaður í klukkustund áður en brauðið fer inn.
 12. Ofninn er hitaður á eins háum hita og ofninn þolir eða a.m.k. í 250°C. Steypujárnspotturinn er látinn sitja inni í ofninum í þessa klukkustund á meðan ofninn er að hitna svo að hann hitni vel líka og brauðið bakist rétt.
 13. Eftir klukkutímann er brauðinu hvolft úr körfunni og á bökunarpappír, hérna er besti tíminn til að skera í brauðið ef það er eitthvað sem þið viljið gera. Þetta er sett snögglega ofan í pottinn og beint inn í ofninn.
 14. Ofninn lækkaður strax niður í 235°C um leið og brauðið fer inn og bakað í 25 mínútur.
 15. Svo er lokið tekið af og þá er brauðið bakað á 210°C í 20 mínútur eða þar til það er orðið fallegt á litinn og tómahljóð heyrist þegar bankað er undir það.

Kælið vel áður en skorið er í það.