Myndlistarmaðurinn Juan lífgaði heldur betur upp á Hofsvallagötuna síðla árs 2019, þegar hann flutti furðuveröld tölvuleiksins fornfræga Super Mario Bros. til Íslands og fann henni stað á grindverkinu við Ólátagarð.

Almenn ánægjan með götulistaverkið hefur ekki farið fram hjá Juan, sem er enn að fá þakkir og hrós fyrir tiltækið og í ljósi þess ákvað hann að útfæra verkið á striga og pappír og gera aðdáendum þess þannig kleift að hafa það með sér heim.

„Já, það er mjög vinsælt. Fólk elskar það,“ segir Juan, um verkið WORLD RVK með vísan til þess að pípulagningamaðurinn Mario ferðast milli heima, og um leið borða, í tölvuleiknum en í raunheimum hefur hann gert varanlega viðkomu við Hofsvallagötu í Reykjavík.

„Mér fannst skemmtileg pæling að gera eitthvað með Mario á Íslandi, þannig að ég fann til íslensk kennileiti eins og Geysi, lunda og Hallgrímskirkju.“

Taktu listina heim

„Fólk er svo hrifið af verkinu þannig að mér datt í hug að einhverjir myndu örugglega vilja hengja það upp heima hjá sér,“ heldur Juan áfram og hlær þegar hann bendir á að verkið á grindverkinu sé vitaskuld of stórt til þess.

„Þannig að ég þurfti að finna einhverja lausn og endaði með því að mála þjappaða frummynd með akrýl á striga.“ Juan kom að sjálfsögðu Mario sjálfum fyrir á striganum ásamt Hallgrímskirkju, kennileiti Reykjavíkur í stóru frummyndinni.

Juan selur myndlist sína undir slagorðinu „Taktu brot af list heim“, en í þeirri seríu eru tvö önnur götuverk. „Ég er með tvö önnur verk sem ég sel eftir sömu hugmynd og hægt er að fá á striga eða prenti. Þetta eru annars vegar Tjarnarbíó og hins vegar eitthvert landslag í Brasilíu.“

Eftirprentin hans Juans eru samþjöppuð mynd af grindverkinu og rúma Mario sjálfan og Hallgrímskirkju.

Vinsælt í 107

„Það er bara einn strigi en svo gerði ég 100 eftirprentanir af honum á pappír þannig að upplagið er takmarkað,“ segir Juan. Hann býður bæði málverkið og tölusettar eftirprentanirnar til sölu á heimasíðu sinni juanpicturesart.com. Striginn kostar 249.000 krónur og er óseldur, en eitthvað hefur nú þegar gengið á eftirprentanirnar sem Juan selur á 21.990 krónur.

Juan segist aðeins hafa vakið athygli á listaverkasölunni á Facebook og viðbrögðin hafi verið góð. Annars sé hann varla byrjaður að kynna þetta, en geri ráð fyrir að áhuginn verði mestur í póstnúmeri 107 þar sem fólk er í nánustum tengslum við frummyndina.

Þegar talið berst að tilurð verksins á grindverkinu segir Juan eigendur hússins sem kennt er við Ólátagarð eiga heiðurinn af hugmyndinni. „Þau báðu mig um að gera eitthvað sem tengdist Mario og mér fannst skemmtileg pæling að gera eitthvað með Mario á Íslandi, þannig að ég fann til íslensk kennileiti eins og Geysi, lunda og Hallgrímskirkju og reyndi að blanda þeim saman við veröld Marios, þannig að það væri eins og hann væri á Íslandi.“

Ólöf Magnúsdóttir, sem býr bak við grindverkið skrautlega, upplýsti í Facebook-hópi Vesturbæjar síðla árs 2019 að þegar „við keyptum í vor var kominn tími á að taka grindverkið í gegn en okkur langaði ekki í stóran líflausan fleka í þessu annars skemmtilega og kreatíva hverfi.“

Juan telur álfinn Link úr Zeldu-leikjunum sóma sér vel í alíslenskum álfheimum.

Til í Zeldu

Þá fylgdi sögunni að Juan hafi svarað kallinu og málað á grindverkið „kauplaust af ástríðu og áhuga“. Óhætt er að segja að götulistaverkið hafi vakið bæði hrifningu og gleði auk þess sem það varð meira að segja að lögreglumáli eftir að skemmdarverk voru unnin á því í fyrra.

Juan segist hafa í nógu að snúast og vera með ýmislegt á penslunum. Hann segist fljótlega ætla að kynna áhugaverða hugmynd sem hann er með í vinnslu og telur ekki síður líklega til vinsælda en WORLD RVK.

„Stundum finnst mér að ég ætti að gera útgáfur af öllum þessum þekktu sígildu, leikjafígúrum í íslensku umhverfi og láta eins og þau séu hérna eða hafi verið hérna,“ segir Juan og nefnir sérstaklega Sonic og Zeldu.

„Ég er í raun rosalega hrifinn af Zeldu,“ segir hann um ævintýraleikina vinsælu þar sem álfurinn Link er frekur til fjörsins. „Ég held að íslenskir álfheimar geti passað mjög vel við Zeldu. Ég er bara ekki kominn með rétta flötinn.“