Ein­tak af einum vin­sælasta tölvu­leik heims, Super Mario 64, seldist í gær á upp­boði í Banda­ríkjunum en leikurinn seldist fyrir rúmlega 1,5 milljónir Banda­ríkja­dala, eða rúmlega 190 milljónir ís­lenskra króna. Er því um að ræða dýrasta tölvu­leik sem hefur nokkurn tíma selst á upp­boði í heiminum.

Leikurinn var gefinn út af Nin­tendo árið 1996, fyrir Nin­tendo 64 leikja­tölvuna, og var meðal þeirra fyrstu sem buðu upp á leik í þrí­vídd. Leikurinn er enn þann dag í dag einn vin­sælasti leikur allra tíma og gaf Nin­tendo ný­verið út leikinn á ný fyrir Nin­tendo Switch leikja­tölvuna.

Að sögn upp­boðs­hússins Herita­ge Auctions var mikil eftir­spurn eftir ein­takinu, sem var nærri full­komið að mati út­tektar­aðila, þar sem að­eins væri að finna færri en fimm ein­tök í heiminum sem væru í jafn góðu á­standi auk þess sem um menningar­lega mikil­vægan leik væri að ræða.

Óttast þróunina

Líkt og áður segir er um að ræða dýrasta tölvu­leik sögunnar en fyrra metið var að­eins nokkurra daga gamalt. Síðast­liðinn föstu­dag seldist ein­tak af Legend of Zelda leiknum, sem er einnig frá Nin­tendo og var gefinn út árið 1998 fyrir NES leikja­tölvuna, fyrir 870 þúsund Banda­ríkja­dali, eða rúm­lega 107 milljónir ís­lenskra króna.

Verð á tölvu­leikjum sem safn­gripum hefur rokið upp síðast­liðið ár og óttast margir að markaðurinn sé við það að springa. Blaða­maðurinn Pat Conri er meðal þeirra sem óttast þróunina en hann sagði í gær að verðið væri engan veginn í sam­ræmi við raun­virði leikjanna.