Fjórðubekkingarnir Helgi Hrafn Magnússon og Kjartan Gestur Guðmundsson sungu og dönsuðu af gleði þegar þeir fengu fréttir af áhuga Nike á Íslandi á teikningum þeirra. Þetta segja mæður þeirra en þeir vinirnir komust í fréttir á dögunum fyrir framtak sitt til neyðarsöfnunar UNICEF á Íslandi fyrir börn í Úkraínu.
Vinirnir eru miklir myndlistar- og skóáhugamenn en þeir seldu teikningar sínar af skóm og færðu UNICEF andvirði sölu fjölda mynda, alls 26 þúsund krónur, síðastliðinn föstudag.

„Eftir að fréttir fóru að berast af teikningum þeirra jókst áhuginn á þeim til muna og núna er mikil eftirspurn hvar sem þeir fara“ sögðu mæður þeirra.
Nike keypti myndirnar á fúlgur fjár
Og nú hefur Nike á Íslandi hefur ákveðið að kaupa tvær teikningar af þeim félögum fyrir samtals 200 þúsund krónur.
Nike á Íslandi veitti því athygli að megnið af myndunum frá þeim voru myndir af Nike skóm. Þeir segjast hafa mikið dálæti á Nike og það hafi hvatt þá til þess að skreyta skó en þeir fengu síðan þá hugmynd að það væri sniðugt að teikna og hanna skó á blaði. Þeir hafi síðan byrjað að selja þessar myndir.

Nike á Íslandi ákvað því að kaupa sitthvora myndina frá drengjunum á 100 þúsund krónur hvora. Kaupin fóru fram með viðhöfn í Hofi á Akureyri í gær og þar fengu listamennirnir greiðslu fyrir verk sín í umslögum.
Við sama tækifæri afhentu þeir Helgi Hrafn og Kjartan Gestur því UNICEF stoltir 200.000 krónur.
„UNICEF á Íslandi og Nike færir þessum góðhjörtuðu ungu drengjum hjartans þakkir fyrir stuðninginn sem mun nýtast vel í umfangsmiklum verkefnum UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, í Úkraínu og við landamæri nágrannaríkja“, segir í sameiginlegri tilkynningu sem barst Fréttablaðinu.


