Ingó kom fyrst fram á Þjóðhátíð með hljómsveitinni Á móti sól. Hann leysti Magna Ásgeirsson, söngvara sveitarinnar af, sem á þeim tíma tók þátt í raunveruleikaþættinum Rockstar Supernova, sem margir muna eftir. Ingó átti ekki von á því að einn góðan veðurdag myndi hann leiða brekkusönginn, sem er einn af hápunktum Þjóðhátíðar, en sú varð raunin.

Hann tók við keflinu af Árna Johnsen á sínum tíma. „Árni er kannski ekki frábær gítarleikari en hann gerði þetta samt mjög vel. Hann byrjaði með þennan brekkusöng sem núna er vinsæll um allt land. Mér fannst pressa að koma á eftir honum en undirbjó mig vel og skoðaði það sem hann hafði gert og hvað myndi svo passa mínum karakter,“ segir Ingó, sem einnig hefur margoft komið fram með hljómsveit sinni, Veðurguðunum, á Þjóðhátíð.

Í ár verður brekkusöngurinn með öðru sniði en vanalega því Þjóðhátíðin fellur niður. Það hefur aðeins einu sinni áður gerst í sögunni. „Ég ætla að telja í brekkusöng í Sjónvarpi Símans milli klukkan 10 og 11 annað kvöld. Það verður örugglega öðruvísi en vanalega, ekkert fólk í brekkunni að syngja með, en það verður gaman að syngja fyrir þá sem eru heima, í sumarbústaðnum, eða á ferðalagi og vonandi tekur fólk undir með mér,“ segir Ingó, sem ætlar að taka þessi klassísku útilegulög sem allir þekkja, auk eigin laga. „Ég verð með gítarinn með mér og svo ætlar Einar Örn Jónsson að spila undir á píanó, en hann var lengst af hljómborðsleikari Í svörtum fötum. Við höfum spilað mikið saman í gegnum tíðina.“

Þegar Ingó er spurður hvernig tilfinning það sé að vera í Reykjavík um verslunarmannahelgina segist hann upplifa það eins og að vera í fríi. „Ég reikna með að vera í Vestmannaeyjum þessa helgi næstu árin, svo það er gaman að prófa eitthvað nýtt og koma svo sterkur inn á næstu Þjóðhátíð,“ bætir hann Ingó við, en hann á ættir að rekja til Eyja. „Pabbi er þaðan og afi minn og amma búa þar, ásamt föðurbróður mínum. Ég var mikið þar sem barn, stundaði lundapysjuveiðar og sprangaði í klettunum þar eins og krakkar í Eyjum gera,“ upplýsir hann.

Heldur hjólunum gangandi

Kórónaveirufaraldurinn hefur ekki haft áhrif á Ingó hvað varðar vinnu. „Ég hef aldrei haft meira að gera. Ég spila mikið á litlum samkomum, svo sem brúðkaupum og afmælum og hef ekki mikið verið með stóra tónleika. Þetta ástand er erfiðast fyrir þá sem eru þar. Ég hef náð að halda hjólunum gangandi og það hjálpar að eiga vinsæl lög,“ segir Ingó, sem á einmitt Þjóðhátíðarlagið í ár. „Þjóðhátíðarnefnd hafði samband við mig fyrir áramótin og bað mig um að huga að því. Mér fannst það smá pressa en fékk bróður minn, Guðmund Þórarinsson, til að semja það með mér og Halldór Gunnar Fjallabróðir pródúseraði síðan lagið. Ég var ekkert að stressa mig of mikið á þessu því ég hafði trú á því að lagið kæmi til okkar, sem það svo gerði. Við fylgdum eigin sannfæringu og erum mjög ánægðir með lokaniðurstöðuna en lagið heitir Takk fyrir mig.“