Balenciaga, eitt vinsælasta merki tískuheimsins, er þekkt fyrir að fara stundum óhefðbundnar leiðir í hönnun sinni. Nýjustu skórnir frá Balenciaga hafa vakið talsverða athygli, en um er að ræða skó sem líta út fyrir að vera úr sér gengnir og rúmlega það.
Vörurnar frá Balenciaga eru oftar en ekki býsna dýrar og ekki beint fyrir hinn venjulega launamann að kaupa sér nýja flík frá merkinu í hverjum mánuði.
Nýjustu skórnir frá Balenciaga byggja á hinum klassísku skóm sem kenndir eru við Paris. Eins og sjá má eru nýju skórnir verr farnir, með fleiri götum og koma auk þess í takmörkuðu upplagi sem gerir þá eftirsóknarverðari í augum sumra.
Upprunalega útgáfa Paris-skóna kostar venjulega um 73 þúsund krónur en nýja línan er nokkuð dýrari og kostar 211 þúsund krónur.

