Það er óhætt að titla Heiðu Harðardóttur, nema í húsgagnabólstrun, sem sundlaugasafnara en hún heldur úti vefnum sundlaugar.com ásamt unnusta sínum Finni Magnússyni. Vefurinn inniheldur allar sundlaugar á landinu og þar geta notendur fylgst með hversu margar sundlaugar þeir hafa heimsótt.

Áhugi hennar á sundlaugum hófst snemma. „Ég held að þessi áhugi minn á ævintýralegum sundlaugum sé sprottinn frá reglulegum heimsóknum í gömlu sundlaugina á Laugum í Sælingsdal sem barn. Ef ég gæti ferðast aftur í tímann þá væri ég til í að fara í þá gömlu laug. Hún var skemmtilega hrá og í minningunni svolítið drungaleg, með heitum potti sem í raun var lítið herbergi með einum glugga. Áður fyrr var þessi sundlaug einnig notuð sem samkomuhús og fór móðir mín á dansleiki þarna, en þá var sundlaugin tæmd og hún notuð sem danssalur.“

Fjölskyldan í heita pottinum í Norrænu.

Kíkir á ströndina í sumar

Heiða og fjölskylda er búsett í Kaupmannahöfn í sumar og þar er ýmislegt í boði. „Hverfislaugin er efst á listanum hjá okkur en hún heitir DGI Byen og er við hliðina á Hovedbanegården. Hún er hringlaga svo maður getur synt endalaust án þess að snúa nokkurn tíma við, en einn hringur er 100 metrar. Svo bíð ég spennt eftir að Øbro-hallen opni aftur eftir viðhald, en það er elsta innisundlaug Danmerkur og arkitektúrinn er undir áhrifum af rómverskum böðum. En ætli sumarið verði ekki notað í að kíkja á strendurnar í nágrenni Kaupmannahafnar og prófa hafnarböðin við Íslandsbryggju.“

Sundlaugin Ólafsvík.

Sakna heitu pottanna

Hún segir fjölskylduna sakna íslensku lauganna mikið, sérstaklega heitu pottanna. „Við höfum ekki verið alveg nógu dugleg að prófa dönsku laugarnar. Mér sýnist Danir standa sig alveg ágætlega í að byggja sundlaugar, en það eru oftast innilaugar með mjög fínu leiksvæði fyrir börn á öllum aldri. En íslenska sundlaugamenningin er alveg sér á báti og heitu pottarnir okkar eru kannski bara svarið við dönsku pöbbamenningunni.“

Sundlaugin í Heydal á Vestfjörðum.

Fimm ára hugmynd

Sundlaugar.com er fimm ára gömul hugmynd sem kviknaði þegar hún og Finnur voru að ferðast um Vestfirði. „Þá fór ég í þrjár sundlaugar sama daginn og í kjölfarið fórum við að velta fyrir okkur hversu margar laugar væru á landinu, hvað við ættum margar eftir og hvort við gætum ekki haldið utan um þessa áskorun, að heimsækja þær allar.“

Hún segir þetta vera í grunninn sáraeinfalda hugmynd. „Finnur setti upp kerfi þar sem þú getur skráð þig og haldið utan um hvaða sundlaugar þú hefur farið í. Ég sá að mestu um efnistökin og á einhverjum tímapunkti í Covid-bylgju 4 var þetta orðið nógu gott til að opna fyrir almenningi. Við erum með ansi gott kort yfir laugar landsins og síðan þessa einu virkni, að merkja við þær sem þú hefur klárað.“ Umferðin hefur haldist nokkuð stöðug þótt vefurinn hafi ekki verið auglýstur. „Það virðist vera að vinahópar og fjölskyldur séu að skora hvert á annað í að klára laugarnar eða allaveganna bera saman bækur. Í dag hafa rúmlega 4.000 skráð sig og merkt við meira en 130.000 laugar. Það gerir rúmlega 30 laugar að meðaltali sem okkur finnst ansi gott. Ánægjulegastar eru samt sögurnar af fólki sem skipuleggur fríið og peppar krakkana í þessa skemmtilegu áskorun.“

Opnar verkstæði í haust

Fjölskyldan flutti til Skive á Jótlandi síðasta sumar, þar sem Heiða kláraði nám í húsgagnabólstrun við Tækniskólann. „Við tókum Norrænu til Kaupmannahafnar kringum páskana með allt okkar hafurtask og prófuðum heitu pottana á þilfarinu í leiðinni. Núna er ég að klára samning í Kaupmannahöfn og stefni á að setja upp eigið verkstæði á Íslandi í haust. Þá kemst lífið aftur í smá rútínu og ég get aftur farið að stunda Vesturbæjarlaugina og bæta í sundlaugasafnið.“