Félagsvísindahjónin Auður Styrkársdóttir og Svanur Kristjánsson eru mikið sundfólk og taka þau bæði sundspretti svo gott sem á degi hverjum. Í byrjun júlímánaðar hóf Auður að skrifa svokallaða laugapistla á Facebook en þar tekur hún út hinar ýmsu laugar höfuðborgarsvæðisins og víðar, skrifar um þeirra helstu einkenni, kosti og galla.

„Við ákváðum að byrja á þessu því við vorum orðin ansi leið á veðrinu. Við fundum að það var orðið íþyngjandi en við förum mikið í sund. Veðrið skiptir ekki miklu máli þar en við við ákváðum að fara í ókunnugar laugar til að létta okkur lund og kanna allar laugar á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Auður í samtali við Fréttablaðið.

Auður er leikin við lyklaborðið og leynir stílbragð hennar sér ekki við lýsingar á hinum ýmsu laugum höfuðborgarsvæðisins. Ýmsir skemmtilegir fróðleiksmolar fylgja skrifunum og þá bendir Auður á hluti sem grípa augað. 

Um Árbæjarlaug skrifaði Auður eftirfarandi:

„Árbæjarlaug var opnuð síðasta dag aprílmánaðar 1994, sem var síðasta vorið sem Sjálfstæðismenn stjórnuðu borginni einir. Gífurlegur kostnaður við laugina átti sinn þátt í falli þessa samfellda sigurferils flokksins. Laugin er því merkileg í pólitískri sögu borgarinnar.

Laugin þótti mikið undur með sinni löngu rennibraut, innilaug með flotrennu í útilaug, margbrotnu pottakerfi og glæsilegum búningsklefum. Hún stendur enn fyrir sínu sem góð vatnaveröld fyrir bæði börn og fullorðna. 

Laugin sjálf er fjarst aðalsvæðinu og þar nýtur kyrrðar í nánd við grenitré og birkiskóg. Pottar eru margir og sumir með einhverju góðu til að gleðja smáfólkið, svo sem fossbunur og lítilli rennibraut. Heitir pottar eru tveir og er annar snarpheitur, og góður nuddpottur með stútum fyrir bæði lendar og axlir. 

Allir pottar eru steyptir og flísalagðir, eðalsmíði. Eimbað er á bakkanum, heitt og gott, og kaldar sturtur þar til hliðar, en kalda pottinn vantar. Það var það eina sem ég gat fundið þessari laug til foráttu. Ég hafði efasemdir um rörarennibrautina, en rörið reyndist bæði bjart og rennilegt.“

En hvað einkennir góða sundlaug?

„Að það sé gott að synda í henni – það er að segja að það sé ekki mikið af fólki í leiðinni. Einnig að það séu góðir útiklefar. Það er svona það sem mér finnst skipta mestu og að andrúmsloftið sé gott,“ segir hún og bætir við að þau hjón ljúki ferðum sínum yfirleitt í heitu pottunum með spjalli við pottverja.

Synda hálfan kílómeter og fara svo í pottinn

Hver laug hefur sín einkenni eða spjallmenningu að hennar mati. Vesturbæjarlaugin var eitt sinn þeirra heimalaug og eiga þau góða spjallvini þar. Eftir að þau fluttu af Hagamel í Einholt hefur Auður hins vegar gert Sundhöllina að sinni heimalaug. Svanur heldur hins vegar tryggðarböndum við Vesturbæinn og gerir sér oftast ferð þangað.

Þrátt fyrir það segir hún að spjallmenningin í Vesturbæjarlaug sé best. „Mér finnst hún vera tiltölulega laus við pólítík. Mínir spjallvinir sammælast eiginlega um að rausa ekki um pólitík,“ segir Auður en hún og Svanur eru bæði menntaðir stjórnmálafræðingar og hafa látið töluvert að sér kveða á sviði greinarinnar. Það sé því gott að geta fundið griðarstað, fjarri fræðunum, í lauginni eða pottunum.

En áður en í pottana er haldið ljúka þau hjón alltaf ákveðinni vegalengd á sundbrautunum. „Við syndum alltaf hálfan kílómeter, þótt við séum gömul,“ segir Auður og hlær. Einnig hafi verið vinsælt hjá henni að stunda Müllersæfingarnar víðfrægu í Vesturbæjarlaug. Til þess þurfi þó að mæta eldsnemma á morgnana, en þær hefjast klukkan hálf átta alla morgna á virkum dögum.

Sundið nærir líkama og sál

Verkefninu er nærri því lokið. Hjónin eru nú nánast búin að þræða allar laugar höfuðborgarsvæðisins þó með einhverjum undantekningum. Til dæmis eiga þau eftir að sækja Lágafellslaug í Mosfellsbæ. Fylgjast má með laugapistlum Auðar á Facebook-síðu hennar.

En hvað er það besta við sundið?

„Þetta er svo góð næring, bæði andlega og líkamlega. Mér finnst líka fólk sem sækir sundlaugar vera rólegra og með betra yfirbragð,“ segir hún að lokum.