Sumarið er sá tími sem svörtu fötin fara í frí og litríkur og léttari fatnaður fær að njóta sín. Tískustraumar sumarsins eru því allt annað en leiðinlegir þetta árið.

Fíngert blúnduefni og stórar blúndur til skrauts verða áberandi og ljóst er að kjólar með blómamynstri eru eitt af því allra heitasta í sumar. Mynstrið er ýmist fínlegt eða gróft og hægt að klæða sig ýmist upp eða niður eftir því hvernig fylgihlutirnir eru. Jakkar yfir kjóla og háir skór í stíl munu sjást víða. Síddin á kjólunum er í lengri kantinum og þeir eru fremur víðir og frjálslegir. Það lítur því út fyrir að sumartískan sé á rómantískari nótum en oft áður.

Röndóttir bolir og buxur

Rendur verða einnig mjög áberandi í sumartískunni en þær gefa frekar svalt útlit. Röndóttir jakkar, bolir, peysur og jafnvel buxur eiga eftir að sjást á hverju götuhorni. Jakkar með einni rönd á bakinu og þverröndóttir jakkar verða í tísku, líkt og þverröndóttir bolir í hvítu og rauðu eða bláu eða jafnvel grænu. Langröndóttar buxur með víðu sniði eru svo sannarlega komnar í tísku bæði fyrir dömur og herra. Þær eru fremur stuttar og í ljósum lit með dökkum, mjóum röndum.

Pastellitir og ljósir tónar

Dökkir litir víkja fyrir pastellitum og ljósum tónum. Sterkir, djúpir litir eins og djúpfjólublár og fagurgrænn, verða líka vinsælir, sérstaklega í jökkum og einnig skóm.

Aukahlutir eru auðvitað ómissandi í sumar sem endranær. Fremur stór, kringlótt sólgleraugu með fíngerðum ramma og jafnvel glerjum í ýmsum litum halda velli og töskur koma einna helst í svörtu eða í því nýjasta nýja: basti.