Guðni Th. Jóhannes­son, for­seti Ís­lands, af­henti Ís­lensku bók­mennta­verð­launin við há­tíð­lega at­höfn á Bessa­stöðum í kvöld en alls skiptust verð­launin í þrjá flokka. Verð­launin nema einni milljón króna fyrir hvert verk auk þess sem verð­launa­hafar fengu skraut­rituð verð­launa­skjöl og verð­launa­gripi, sem voru hannaðir af Jóni Snorra Sigurðs­syni á gull­smíða­verk­stæði Jens.

Fræðibækur og rit almenns efnis

Í flokknum fræði­bækur og rit al­menns efnis hlaut Sumar­liði R. Ís­leifs­son verð­laun fyrir bókina Í fjarska norðursins: Ís­land og Græn­land – við­horfa­saga í þúsund ár sem gefin var út af Sögu­fé­laginu. Í um­sögn loka dóm­nefndar kemur fram að um sé að ræða glæsi­legt og eigu­legt rit.

Bækurnar sem voru tilnefndar í flokknum fræðibækur og rit almenns efnis.
Mynd/Kiljan - RÚV

Barna- og ungmennabækur

Í flokknum barna- og ung­menna­bækur hlutu þær Arn­dís Þórarins­dóttir og Hulda Sig­rún Bjarna­dóttir verð­laun fyrir bókina Blokkin á heims­enda sem var gefin út af Máli og menningu. Í um­sögn loka­dóm­nefndar segir að bókin sé skemmti­lega unnin úr grum­legri hug­mynd og að sagan hafi burði til að heilla les­endur á öllum aldri.

Bækurnar sem voru tilnefndar í flokknum barna- og ungmennabækur.

Skáldverk

Í flokknum skáld­verk var það síðan Elísa­bet Kristín Jökuls­dóttir sem hlaut verð­laun fyrir bókina Apríl­sólar­kuldi sem gefin var út af JPV út­gáfu. Í um­sögn loka­dóm­nefndarinnar segir að Elísa­bet leiði lesandann ó­vænta en hrífandi leið í gegnum á­takan­lega skáld­ævi­sögu Elísa­betar og að um sé að ræða at­hyglis­verða við­bót í þessari ný­skil­greindu bók­mennta­tegund.

Bækurnar sem voru tilnefndar í flokknum skáldverk.
Mynd/Kiljan - RÚV

Fimmtán bækur tilnefndar

Alls voru fimm­tán bækur til­nefndar til verð­launanna í desember þar sem fimm bækur vor til­nefndar í hverjum flokki. Loka­dóm­nefnd valdi síðan verkin sem hlutu verð­launin en nefndina skipuðu Einar Örn Stefáns­son, Hrund Þórs­dóttir, Jóhannes Ólafs­son og Ingunn Ás­dísar­dóttir.

Ís­lensku bók­mennta­verð­launin fyrir ári síðan, árið 2019, hlutu Jón Viðar Jóns­son fyrir Stjörnur og stór­veldi á leik­sviðum Reykja­víkur 1925 – 1965, Bergrún Íris Sæ­vars­dóttir fyrir Lang­elstur að ei­lífu og Sölvi Björn Sigurðs­son fyrir Seltu - Apó­krýfa úr ævi land­læknis.

Veitt árlega frá árinu 1989

Sýnt var frá at­höfninni í beinni út­sendingu á Ríkis­út­varpinu þar sem for­seti Ís­lands setti at­höfnina, Heiðar Ingi Svans­son, for­maður Fé­lags ís­lenskra bóka­út­gefanda, hélt stutta tölu, og tón­listar­maðurinn Snorri Helga­son flutti tvö lög. Þá á­vörpuðu verð­launa­hafar gesti.

Verð­launin hafa verið veitt ár­lega frá árinu 1989 en Ís­lensku bók­mennta­verð­laununum var komið á fót þá í til­efni 100 ára af­mæli Fé­lags ís­lenskra bóka­út­gef­enda. Fyrsta árið var verð­laununum ekki skipt í flokka en ári síðar skiptust til­nefndar bækur í tvo flokka, annars vegar fagur­bækur, og hins vegar fræði­bækur og rit al­menns efnis.

Árið 2013 bættist síðan við þriðji flokkurinn, flokkur barna- og ung­menna­bóka. Árið 2020 var flokki fagur­bóka breytt í flokk skáld­verka.