Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, afhenti Íslensku bókmenntaverðlaunin við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í kvöld en alls skiptust verðlaunin í þrjá flokka. Verðlaunin nema einni milljón króna fyrir hvert verk auk þess sem verðlaunahafar fengu skrautrituð verðlaunaskjöl og verðlaunagripi, sem voru hannaðir af Jóni Snorra Sigurðssyni á gullsmíðaverkstæði Jens.
Fræðibækur og rit almenns efnis
Í flokknum fræðibækur og rit almenns efnis hlaut Sumarliði R. Ísleifsson verðlaun fyrir bókina Í fjarska norðursins: Ísland og Grænland – viðhorfasaga í þúsund ár sem gefin var út af Sögufélaginu. Í umsögn loka dómnefndar kemur fram að um sé að ræða glæsilegt og eigulegt rit.

Barna- og ungmennabækur
Í flokknum barna- og ungmennabækur hlutu þær Arndís Þórarinsdóttir og Hulda Sigrún Bjarnadóttir verðlaun fyrir bókina Blokkin á heimsenda sem var gefin út af Máli og menningu. Í umsögn lokadómnefndar segir að bókin sé skemmtilega unnin úr grumlegri hugmynd og að sagan hafi burði til að heilla lesendur á öllum aldri.

Skáldverk
Í flokknum skáldverk var það síðan Elísabet Kristín Jökulsdóttir sem hlaut verðlaun fyrir bókina Aprílsólarkuldi sem gefin var út af JPV útgáfu. Í umsögn lokadómnefndarinnar segir að Elísabet leiði lesandann óvænta en hrífandi leið í gegnum átakanlega skáldævisögu Elísabetar og að um sé að ræða athyglisverða viðbót í þessari nýskilgreindu bókmenntategund.

Fimmtán bækur tilnefndar
Alls voru fimmtán bækur tilnefndar til verðlaunanna í desember þar sem fimm bækur vor tilnefndar í hverjum flokki. Lokadómnefnd valdi síðan verkin sem hlutu verðlaunin en nefndina skipuðu Einar Örn Stefánsson, Hrund Þórsdóttir, Jóhannes Ólafsson og Ingunn Ásdísardóttir.
Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir ári síðan, árið 2019, hlutu Jón Viðar Jónsson fyrir Stjörnur og stórveldi á leiksviðum Reykjavíkur 1925 – 1965, Bergrún Íris Sævarsdóttir fyrir Langelstur að eilífu og Sölvi Björn Sigurðsson fyrir Seltu - Apókrýfa úr ævi landlæknis.
Veitt árlega frá árinu 1989
Sýnt var frá athöfninni í beinni útsendingu á Ríkisútvarpinu þar sem forseti Íslands setti athöfnina, Heiðar Ingi Svansson, formaður Félags íslenskra bókaútgefanda, hélt stutta tölu, og tónlistarmaðurinn Snorri Helgason flutti tvö lög. Þá ávörpuðu verðlaunahafar gesti.
Verðlaunin hafa verið veitt árlega frá árinu 1989 en Íslensku bókmenntaverðlaununum var komið á fót þá í tilefni 100 ára afmæli Félags íslenskra bókaútgefenda. Fyrsta árið var verðlaununum ekki skipt í flokka en ári síðar skiptust tilnefndar bækur í tvo flokka, annars vegar fagurbækur, og hins vegar fræðibækur og rit almenns efnis.
Árið 2013 bættist síðan við þriðji flokkurinn, flokkur barna- og ungmennabóka. Árið 2020 var flokki fagurbóka breytt í flokk skáldverka.