Hér er á ferðinni sumarlegt og æðislega gott risarækjusalat úr smiðju Lindu Ben sem þú átt eftir að elska. Hægt er að fylgjast með matarbloggi Lindu Ben á uppskriftarsíðu hennar Linda Ben.
„Maður byrjar á því að smella risarækjunum í maríneringu sem saman stendur að mestu af lime, hvítlauk og chilli, og svo steikir maður þær á pönnu. Svo smellir maður romain salati, bökuðum sæt kartöflubitum, mangó og tómötum í skál, smellir svo dressingunni, risarækjunum og ferskri basil yfir. Þá eruð komin með þetta dásamlega sumar salat,“ segir Linda Ben.

Risarækjur og marínering
400 g risarækjur (óeldaðar)
2-3 msk. hitaþolin olía (t.d. sólblómaolía)
3-4 hvítlauksgeirar
1 tsk. oreganó
½ tsk. þurrkað chillí
Salt og pipar
1 stk. lime
Salat
300 g Romain salat
1 stk. sæt kartafla (u.þ.b. 350 g)
1 stk. mangó
3 tstk. ómatar
Fersk basilíka eftir smekk
Dressing
3 msk.hágæða extra virgin ólífu olía
1 ½ msk. balsamik edik
1 tsk. hunang
1 lime
¼ tsk. chilli
Salt og pipar eftir smekk
Byrjið á því að setja risarækjurnar í maríneringu. Afþíðið rækjurnar í köldu vatni (ef þær eru frosnar), þerrið rækjurnar og setjið í skál. Hellið olíu yfir rækjurnar, rífið hvítlaukinn yfir þær, bætið oreganó út á ásamt chilli kryddi, salt og pipar, rífið börkinn af lime-inu og kreistið svo safann úr henni. Blandið öllu saman og leyfið rækjunum að marínerast, helst í klukkustund, en annars eins lengi og tími leyfir. Kveikið á ofninum, stillið á 200°C, undir og yfir hita.
Skrælið sætu kartöfluna og skerið hana í litla bita. Raðið í eldfast mót, setjið örlítið af hitaþolinni olíu yfir og salt og pipar. Eldið í um það bil 20 mínútur eða þar til kartöflubitarnir eru eldaðar í gegn. Skerið romain salatið niður og setjið á stóran disk, raðið kartöflubitunum á diskinn, flysjið mangóið og skerið það í bita ásamt tómötunum, raðið á diskinn.
Síðan er bara að bera þetta fallega fram og njóta.