Þar sem nú er sumar og gaman að bjóða upp á sumarlega og fallega eftirrétti fengum við Maríu til að deila með okkur tveimur af sínum uppáhaldseftirréttum sem eiga vel við þessa dagana. Hér eru á ferðinni sumarleg marengsskál og syndsamlega ljúffengur bragðarefur sem hefur heldur betur slegið í gegn á heimili hennar.

„Ég elska að gera alls kyns marengsskálar og leika mér með innihaldið. Marengsskálar er svo einfalt að gera og tekur ekki nema 10-15 mínútur. Tvennt hef ég þó alltaf í þeim en það er marengs og rjómi, restina er svo hægt að leika sér með, eins og hvaða sælgæti og ávextir eru notuð,“ segir María.

Sumarlega marengsskálin er dýrðleg, svo falleg fyrir augað og bragðast ómótstæðilega vel.

Hér ákvað María að notast við púðursykursmarengs, kíví, vínber og banana. „Mér finnst sú blanda passa afar vel saman ásamt Olsen Olsen og Völu-froskum. Sumarleg og tilvalin í eftirrétt eða á veisluborðið.“

Sumarleg marengsskál að hætti Maríu Gomez

1 stk. tilbúinn púðursykursmarengsbotn

500 ml rjómi, þeyttur

150 g Völu-froskar

5 stk. Olsen Olsen

1-2 kíví

1-2 bananar

Vínber eftir smekk

Þeytið rjómann og setjið eitt lag af honum neðst í skál. Brjótið næst marengs yfir rjómann og dreifið niðurskornum ávöxtum og smátt skornu sælgætinu yfir í eitt lag. Setjið svo aftur eitt lag af rjóma, annað lag af niðurbrotnum marengs, ávöxtum og sælgæti og svo svona koll af kolli þar til skálin er orðin full og allur rjómi, nammi og ávextir búið.

Toppið svo með nammi og ávöxtum og geymið í kæli í eins og tvær klukkustundir og berið svo fram.

Bragðarefurinn er syndsamlega góður og slær ávallt í gegn á heimili Maríu. Svo fallegur í háu glasi.

Bragðarefur sem bragð er af

Bragðarefur er einn vinsælasti ísrétturinn þessa dagana og rýkur út úr ísbúðunum eins og heitar lummur. „Ég elska bragðaref og hef gert síðan hann leit fyrst dagsins ljós í ísbúðum landsins. Ég verð þó að viðurkenna að það að fara með fjölskylduna í ísbúðina er orðið ansi dýrt sport ef um stóra fjölskyldu er að ræða.“

Því hefur María gert bragðaref heima í fjölda ára. „Hann bragðast alveg eins og úr ísbúðinni. Hér þarf ekki að notast við neitt annað en hrærivél eða blandara, eða matvinnsluvél allt eftir því hvað er til á heimilinu, jafnvel bara skál og sleikju. Ég geri hann alltaf annað hvort í blandara eða hrærivélinni og nota þá T-ið.“

María segir jafnframt að það skipti miklu máli að tryggja að bragðarefurinn verði ekki of linur. „Grautlinur bragðarefur sem er farinn að leka er þó eitthvað sem ég vil alls ekki sjá, þess vegna set ég alltaf tilbúinn bragðarefinn aftur í ísboxið sem ísinn kom úr og set í frysti í alla vega 30 mínútur og geymi svo restina líka þannig í frystinum,“ segir María að lokum.

Heimagerður bragðarefur

2 lítrar vanilluís (ég notaði Bónus-ís en mér finnst hann ekki eins rjómakenndur og annar ís og því verður bragðarefurinn ferskari)

250 g fersk jarðarber (verða að vera fersk, alls ekki frosin)

130 g Sambó-piparkúlur

130 g Sambó-þristakúlur eða Þristar

5 kókosbollur

Látið ísinn standa í smástund uppi á borði svo hann mýkist ögn. Skerið jarðarberin smátt niður á meðan ásamt sælgætinu. Setjið svo ísinn og jarðarberin saman í hrærivél eða hin tækin sem ég nefndi að ofan og hafið í gangi í örstutta stund eða bara þar til jarðarberin eru rétt svo blönduð saman við. Ef þið gerið í hrærivél með T-inu setjið þá næst nammið út í skálina og hrærið létt saman en ekki of mikið svo ísinn verði ekki of linur. Ef þið notið matvinnsluvél eða blandara er betra að setja ísinn eftir að honum er blandað saman við jarðarberin í skál og hræra namminu saman við með sleikju. Setjið svo bragðarefinn út í 2 lítra ísboxið og lokið boxinu. Kælið í frysti í eins og 30-60 mínútur þá verður hann stífur og kaldur. Geymið svo rest ef verður eftir í ísboxinu áfram í frystinum.

Fyrir áhugasama þá á María og rekur vefsíðuna paz.is og er á Instagram @paz.is þar sem hún sýnir innblásnar heimilishugmyndir og gefur einfaldar en jafnframt góðar uppskriftir. Á miðlunum sínum fær hún útrás fyrir allt það sem henni þykir gaman að gera.

Þessi eftirréttur getur varla verið girnilegri.