Það er Ivan Svanur Corvasce sem sviptir hulunni af heitasta sumarkokteilnum fyrir verslunarmannahelgina í ár.

Ivan er barþjónn og meistari í kokteilagerð og kennir meðal annars helstu leynitrixin við kokteilagerð í Rvk Cocktails. Hann er snillingur í því að bera fram ljúffenga kokteila sem hitta í mark. Hann hefur verið iðinn síðastliðin ár við að kenna áhugasömum að búa til ljúffenga kokteila sem töfra gestina upp úr skónum, og deila uppskriftum sem enginn stenst.

Hér töfrar Ivan fram sumarkokteilinn í ár og flettir ofan af uppskriftinni.

„Drykkurinn Royale Palace varð til um leið og ég smakkaði nýja ginið frá Tanqueray í fyrsta sinn en það heitir Tanqueray Royale og er unnið úr sólberjum og því berjamikið og ferskt gin. Drykkurinn er meðal annars á sumarseðlinum hjá okkur og er hægt að panta hann í veislur þar sem barþjónar Rvk Cocktails eru bókaðir,“ segir Ivan og er hrikalega ánægður með útkomuna á þessum drykk.

„Royale Palace er ótrúlega einfaldur í bígerð en bragðmikill, sumarlegur og hentar sérstaklega vel eftir góða máltíð í stað eftirréttar. Það þýðir samt ekki að hann sé of sætur heldur er hann í fullkomnu jafnvægi milli sætu og sýru og kremaða áferðin er alveg ómótstæðileg.“

Royale Palace er ótrúlega einfaldur í bígerð en bragðmikill, sumarlegur og hentar sérstaklega vel eftir góða máltíð í stað eftirréttar. Svo fallegur að bera fram í glasi á fæti.

Royale Palace

Sett í glas á fæti

50 ml Tanqueray Royale

25 ml ferskur sítrónusafi

20 ml ríkt sykursíróp (1,5:1/sykur:vatn)

15 ml Aquafaba

Þurrkaðar límónur sem skraut

Aquafaba er freyðiefni sem barþjónar nota í stað eggjahvítu. Froðan verður þykkari, mýkri og helst lengur en eggjahvítufroðan. Svo er ekki eggjalykt af drykknum og hann er þar að auki vegan. Aquafaba er einfaldlega vatnið úr kjúklingabaunadós. Þá opnum við dósina, sigtum vatnið frá baununum og notum vatnið í drykkinn.

Þurrkaðar límónur: Fersk græn límóna er skorin í sneiðar. Svo er límónan lögð á hreint viskastykki og hún þurrkuð létt með viskastykkinu, þetta skref tryggir að börkurinn helst grænn í gegnum þurrkferlið. Því næst er sneiðunum skellt beint á grind í ofn á 70°C í 8-10 klukkustundir. Þessar límónusneiðar geymast í marga mánuði og því er gaman að gera slatta í einu.

Aðferð:

Við setjum öll hráefnin nema skrautið í hristara, fyllum hann alveg upp í topp með klaka og hristum eins fast og við getum í 10–15 sekúndur eða þar til hristarinn er orðinn vel kaldur. Þá er drykkurinn streinaður í gegnum fínt sigti í glas á fæti og skreyttur með þurrkuðu límónusneiðinni.

Njótið vel.