„Ég byrjaði að vinna við veiðileyfasölu árið 1973 en þá var ekkert veiðihús í Mývatnssveit við Laxá. Öll afgreiðslan fór fram heima hjá mér á Arnarvatni, þar sem ég bjó með foreldrum mínum, systrum og dóttur minni. Þetta var þó nokkurt álag á heimilið, en þótti sjálfsagt. Veiðimenn tjölduðu á tjaldsvæði sem var útbúið og settur var upp kamar með fötu, en það var í mínum verkahring að losa hana. Seinna var sett upp klósett með vatni, sem þurfti að dæla með handdælu. Einnig bjuggu veiðimenn í gistingu, sem var rekin í skólanum á Skútustöðum. Veiðiheimilið var tekið í notkun 1995 en það var byggt úr vinnuskúrum sem voru keyptir frá Blönduvirkjun. Ég man að það voru ekki allir veiðimenn kátir þegar byrjað var að bjóða gistingu inni við,“ rifjar Hólmfríður upp.

Kúltúrinn í kringum veiðina hefur breyst heilmikið á þessum tíma, að hennar sögn. „Hér áður fyrr voru menn aðallega að veiða fisk í matinn en núna er miklu meira spáð í lífríkið, hvað urriðinn étur og hvernig samspili fisks og náttúru er háttað. Mér finnst þetta skemmtileg þróun,“ segir Hólmfríður glaðlega.

Í kringum 1971 var stofnað veiðifélag um ána og um leið var lögð miklu meiri áhersla á fluguveiði en áður hafði verið gert. „Það var til að vernda urriðastofninn og lífríki árinnar. Hér er staðbundinn urriði og það er hægt að veiða hann upp úr stöðunum ef það er gengið of nærri honum. Þróunin varð síðan sú að þetta svæði varð sennilega það fyrsta á landinu þar sem eingöngu var veitt á flugu. Síðan var ákveðið að sleppa öllum fiski sem var um pund að þyngd eða um 35 cm á lengd. Svo var settur á kvóti og leyft að veiða 12 urriða á dag, nokkrum árum síðar var því breytt í 10 fiska á dag, síðan 8 og loks 6, þrjá á hvorri vakt,“ segir Hólmfríður og bætir við að það hafi komið dálítið af sjálfu sér.

„Það var þannig að menn voru að henda fiski úr frystikistunni frá árinu áður þegar þeir komu hingað í veiði. Útlendir veiðimenn voru líka skeptískir á að drepa mikið af urriða, enda vanir því að mega aðeins hirða einn fisk í sínu heimalandi.“

Veiðimenn að græja sig fyrir vaktina. Hólmfríði finnst ánægjulegt að hitta á ný gamla vini sem hafa komið ár eftir ár í Mývatnssveitina að veiða. Hún segir líka gaman að hitta fólk sem byrjaði að veiða í ánni sem börn. MYND/AÐSEND

Púpan vinsælust

Þegar talið berst að því hvaða fluga sé vinsælust við veiði í Laxá í Mývatnssveit segir Hólmfríður að núna sé veiði á púpur gegnumgangandi. „Áður fyrr var stór straumfluga mest notuð en svo urðu litlar silungaflugur vinsælar en það hefur þróast yfir í að núna nota veiðimenn nær eingöngu púpur. Hér var t.d. holl um daginn sem var mikið púpuveiðiholl. Eins og stendur er mikið af hornsílum í ánni sem koma ofan úr Mývatni og þá er vænlegra að veiða á straumflugu, eins og t.d. Black Ghost, heldur en púpu en ég verð vör við að margir veiðimenn, sérstaklega þeir yngri, eiga erfitt með að veiða á annað en púpu.“

Kona í karlaheimi

Innt eftir því hvernig það sé að vera kona í þeim karlaheimi sem stangaveiðin óneitanlega er segir Hólmfríður að það hafi breyst mikið frá því hún var ung stúlka. „Fyrstu árin fann ég að margir eldri menn áttu erfitt með að einhver stelpugopi vissi eitthvað um veiði og það var líka aðeins verið að klappa manni á lærið. Núna þykir sjálfsagt að ég viti eitt og annað um veiði og veiðimenn leita hiklaust til mín til að fá góð ráð og upplýsingar um veiðistaði og slíkt. Mér er alltaf sýnd virðing.“

Hún nefnir að sífellt fleiri konur komi í veiði á eigin forsendum, en ekki til að fylgja eiginmönnum sínum. „Mér fannst það breytast um síðustu aldamót og hingað koma margar konur til að veiða sjálfar.“

Það var ekki beinlínis sumarlegt um að litast í Mývatnssveitinni í annarri viku júnímánaðar. Hólmfríður er þó bjartsýn á góða veiði í sumar og vonast eftir betri tíð. „Það er mikið æti í ánni og sumarið lítur vel út í heild,“ segir hún. MYND/AÐSEND

Saknaði Laxár í Mývatnssveit og kom aftur

Hólmfríður lét af störfum haustið 2008 þegar Stangaveiðifélag Reykjavíkur tók við rekstri árinnar af landeigendum. „Það var erfitt að hætta. Sumarið hjá mér kom alltaf með veiðimönnunum. Ástæðan fyrir því að ég kom aftur til starfa er sú að Ingimundur Bergsson hjá Stangaveiðifélagi Reykjavíkur hafði samband við mig í vetur og sagðist lengi hafa ætlað að spyrja mig hvort ég væri til í að koma aftur. Þar sem mér finnst starfið svo skemmtilegt ákvað ég að slá til. Það er afskaplega ánægjulegt að hitta veiðimennina aftur og ég hef líka mikið yndi af því að hitta unga fólkið sem er komið að veiða eftir að hafa komið hingað sem börn.“

Hvernig er venjulegur dagur hjá þér í vinnunni?

„Ég kem í veiðihúsið þegar nýtt holl kemur í ána. Ég passa upp á að fólk skrái veiðina og reyni að vera fólki innan handar ef það ratar ekki um svæðið og gef því upplýsingar um flugur og góða veiðistaði. Starfið er miklu léttara en þegar ég var að þvo gólf og skipta um á rúmum. Núna sjá aðrir um það.“

Hvernig verður veiðisumarið að þínu mati?

„Ég er bjartsýn. Urriðinn er vænn, feitur og fínn. Það er mikið æti í ánni og sumarið lítur vel út í heild. Ég vona bara að það verði ekki bálhvasst eða hríðarveður í allt sumar.“