Á morgun, fimmtudaginn 23. júní, halda Samtökin ’78 hinsegin Sumarhátíð í samstarfi við Hinsegin daga og Reykjavíkurborg. Hátíðin verður milli 17 og 19 á opnu útisvæði við húsnæði Samtakanna við Suðurgötu 3. Þar verður hinsegin menningu fagnað og hinn eini sanni Páll Óskar stígur á svið.

„Hugmyndin að viðburðinum kom út frá því að sjá auglýsingu frá Miðborgarsjóði um að hægt væri að sækja um styrk til að halda viðburði á nýjum stöðum í miðborginni,“ segir Sigurgeir Ingi Þorkelsson, kynningar- og viðburðastjóri Samtakanna ’78. „Það er stórt bílastæði hér við hliðina á okkur á Suðurgötu og ég hef oft hugsað hvað það væri gaman að halda eitthvað þar á sumrin. Hér er bjart og fallegt og það er ótrúlega fallegt tré hérna á horninu, svo það er oft gaman að vera hérna.“

Hátíðir ramma inn sumarið

„Þetta er skemmtilegur tími til að halda viðburð, því þetta er bjartasti og einn fallegasti tími ársins og fólk er akkúrat að detta í sumarfrí í júlí. Svo strax í byrjun ágúst koma hinsegin dagar,“ segir Sigurgeir. „Það var strax efst á óskalistanum að fá Pál Óskar til að koma fram. Það er svo alltaf öðru hvoru hinsegin fólk í hinum og þessum listum eða rekstri sem hefur samband við Samtökin og spyr hvort við getum boðið því vettvang til að koma sér á framfæri. Þetta fólk, sem við höfum viljað aðstoða en ekki haft vettvang til þess fyrr en núna, mun koma fram þarna.

Það verður ýmislegt fleira í boði á Sumarhátíðinni og ég er mjög spenntur. Til dæmis hinsegin fólk í matargerð og veitingarekstri, en nokkur úr þeim hópi ætla að koma og kynna sínar vörur. Svo verða líka nokkur atriði, meðal annars verður nýkrýnd dragdrottning Íslands með okkur, ásamt fleira listafólki,“ segir Sigurgeir. „Það er margt hinsegin fólk í listum og það að vera hinsegin getur fært manni aðra sýn á samfélagið. Við þekkjum líka hvernig jaðarsetning getur leitt til þess að manns eigin verk komist ekki jafn vel á framfæri og annarra. Þess vegna er mikilvægt að veita þetta rými til að hampa hinsegin listafólki og list þess.

Þetta er í fyrsta sinn sem við höldum þennan tiltekna viðburð, en ef hann heppnast vel er von til að gera þetta árlega. Þá gætu verið tvær hinsegin hátíðir sem ramma inn sumarið,“ segir Sigurgeir. „Þetta á líka að vera hálfgerð kjötkveðjuhátíð fyrir dagskrána okkar í vor, starfsemin leggst svo í dvala í júlí vegna sumarfría. Svo mætum við galvösk á hinsegin daga fyrstu vikuna í ágúst.“

Sífellt að meta hve örugg þau eru

„Það er frábært að hafa hinsegin daga, en ein vika á ári er ekki nóg, við þurfum að skapa stöðug tækifæri fyrir hinsegin fólk til að koma saman og svo er þetta líka bara tækifæri fyrir okkur til að sýna styrk,“ útskýrir Sigurgeir. „Við í hinsegin samfélaginu þurfum að koma saman og gera eitthvað skemmtilegt saman, það er mikilvægur hluti af okkar réttindabaráttu. Það eru stöðugt að koma fréttir um að það sé sótt að réttindum hinsegin fólks. Bara núna í fyrradag voru að berast fréttir af því að Sundsamband Íslands hafi kosið með því að takmarka aðgengi trans kvenna að því að keppa við hlið kynsystra sinna á heimsmeistaramótinu.

Sigurgeir segir að það sé verið að reyna að brjóta niður samstöðu hinsegin fólks með því að veitast að ákveðnum hópum innan samfélagsins og það sé hætta á að réttindi tapist ef það er látið viðgangast. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON BRINK

Réttindabarátta hinsegin fólks er enn þá mikilvæg því við sjáum enn augljós dæmi um mismunun. Það vakti okkur til dæmis til mikillar umhugsunar að sjá viðtal við ungmenni sem er veist að úti á götu fyrir að vera sýnilega hinsegin,“ segir Sigurgeir. „Þetta er eitthvað sem við sem erum hinsegin finnum öll fyrir og við erum stöðugt að meta hversu örugg við erum í ólíkum aðstæðum og hversu sýnileg við þorum að vera. Fólk sem þorir það uppsker áreiti og ofbeldi í kjölfarið. Það er mikilvægt að muna að baráttan er ekki búin og það er ástæðan fyrir því að við eigum Samtökin ’78, sem eru að reyna að breyta samfélaginu til hins betra.“

Reynt að brjóta niður samstöðu

„Það er verið að reyna að brjóta niður samstöðu hinsegin fólks með því að veitast meira að ákveðnum hópum þess en öðrum, til dæmis trans fólki,“ segir Sigurgeir. „Það er hætta á að réttindi tapist ef við leyfum að það sé rekinn fleygur í hinsegin samfélagið og samþykkjum að réttindi séu tekin af einum hópi á meðan það er ekki verið að taka þau af okkur sjálfum. Það brýtur samstöðuna og þar er mest hætta á afturför.

En sem betur fer er starfsemi Samtakanna og fólks í grasrótinni að skila góðum árangri hér á landi. Ísland lagði til dæmis fram aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks og þó að við höfum ýmsar athugasemdir við hana er gott að hún sé til staðar og ríkisstjórnin hafi áætlun um að vinna að réttindum hinsegin fólks,“ segir Sigurgeir. „Svo voru lög um kynrænt sjálfræði samþykkt 2019 sem voru mjög stór réttarbót fyrir hinsegin fólk á Íslandi. Það er mjög jákvætt að við erum að sjá framþróun. En auðvitað er baráttan ekki búin.

Það sem er ofarlega á baugi er til dæmis þessi sókn að trans fólki, sem er mikið tengd íþróttum. Þetta snýst oft um aðgengi að klefum og það er margt sem lög um kynrænt sjálfræði áttu að veita sem hefur ekki gerst,“ segir Sigurgeir. „Þar segir til dæmis að alls staðar þar sem er verið að kynjaskipta þurfi að bjóða upp á kynhlutlausan valmöguleika, en þetta vantar mikið í búnings- og salernisaðstöðu. Nemendur í HÍ hafa bent á þennan skort. Það er ótrúlega margt eftir og það er alltaf eitthvað nýtt sem kemur í ljós. Vonandi er þetta samt ekki eilíf barátta og á endanum hættir það að skipta máli hvort fólk sé svona eða hinsegin.“

Hægt að styðja baráttuna

„Að lokum myndi ég vilja hvetja fólk sem hefur áhuga á að styrkja starfsemi samtakanna til að gerast Regnbogavinir og styrkja starfið með mánaðarlegu framlagi á heimasíðunni okkar eða á regnbogavinir.is. Samtökin ’78 sinna mjög mikilvægu starfi, meðal annars fræðslu í skólum og á vinnustöðum og veita sérfræðiráðgjöf varðandi hinsegin málefni án endurgjalds, ásamt því að halda úti félagslífi fyrir hinsegin fólk og berjast fyrir framþróun í réttindum,“ útskýrir Sigurgeir. „Þetta er dagleg vinna og það er nóg að gera.“


Nánari upplýsingar um Sumarhátíðina er að finna á Facebook undir nafni viðburðarins.