Sumargjafir hafa tíðkast hér á landi allt frá sextándu öld og þær eiga sér lengri sögu en jólagjafir. Hér áður fyrr var til siðs að gefa börnum jafn sem fullorðnum sumargjafir en með tíð og tíma hefur þessi siður breyst og nú til dags eru það aðallega börn sem fá sumargjafir sem gjarnan tengjast komu sumarsins.

Ekki er alveg ljóst hvenær fólk fór að gefa hvort öðru gjafir í tilefni sumardagsins fyrsta en elsta dæmið er að finna í minnisblöðum frá árinu 1545 þar sem Gissur Einarsson biskup í Skálholti skrifar að hann og aðrir heimilismenn hefði gefið hver öðrum sumargáfur. En með því átti hann við sumargjafir. Gjafirnar sem Gissur nefnir eru meðal annars skeiðar, silkisaumað tjald, silfurkeðja og ensk mynt. En á þessum tíma hafa þetta líklega verið mjög veglegar gjafir. Það má með sanni segja að sumardagurinn fyrsti hefur verið haldinn hátíðlegur allt frá tólftu öld og lengi vel var hann einn hátíðlegasti dagur ársins. Á þessum tíma var árinu skipt í tvö löng misseri, sumar og vetur, og sumardagurinn fyrsti markaði upphaf sumarmisseris. Hann var jafnframt fyrsti dagur hörpu samkvæmt gamla mánaðaratalinu

Sumargjafir gleðja

Almennt var til siðs snemma á síðustu öld að fólk fagnaði sumardeginum fyrsta með því að gera vel við sig í mat og drykk og gefa gjafir. Allt fór það eftir því sem efni og ástæður stóðu til. Foreldrar gáfu gjarnan börnum sínum flík eða hluti sem þeim vantaði. Hjón gáfu hvort öðru gjafir og húsbændur gáfu vinnufólki sínu gjarnan gjafir. Sumargjafirnar hafa vakið mikla eftirvæntingu því lítið var um gjafir í gamla bændasamfélaginu hér áður fyrr. Þá voru gjafirnar yfirleitt heimagerðar hjá þeim sem bjuggu í sveit því ekki var farið til næsta kaupstaðar til að kaupa þær. Lang skemmtilegast var að útbúa sumargjafirnar með leynilegum hætti og koma þiggjendum á óvart. Þetta voru gjarnan gjafir sem komu á góðum notum eins og rósavettlingar, sem eru fallega útprjónaðir vettlingar með rós á handarbakinu, illeppa í sauðskinnskó, ullarsokkar og efni í svuntu svo dæmi séu tekin. Heimasmíðaðir kistlar, vasahnífar og vasaklútar voru einnig vinsælar gjafir. Sumardagurinn fyrsti á þessum tíma bar með sér von um birtu og yl eftir langan og strangan vetur samkvæmt frásögnum á þessum tíma.

Í dag er haldið upp á sumardaginn fyrsta með skrúðgöngum, hoppuköstulum og skemmtunum fyrir alla fjölskylduna með ýmsu tagi og það má með sanni segja að fjölmörg fyrirtæki eru farin að setja saman fjölskylduskemmtun í tilefni dagsins. Sumargjafirnar hafa líka breyst og börn fá gjarnan gjafir frá foreldrum og ömmu og öfum sem tengjast komum sumarsins eins og útileikföng, bolta, sippubönd, sápukúlur og nýja fötu og skóflu. Sum börn fá veglegri gjafir eins og hjól eða hjólabretti, aðrir fá sumarfatnað og sumir upplifun. Það er gaman að halda í þennan gamla séríslenska sið og hvort sem gjafirnar eru stórar eða smáar þá gleðja þær börnin. Sælla er að gefa en þiggja eins og máltækið segir.

Í minni fjölskyldu eru gefnar sumargjafir og það er líka gert vel við sig í mat og drykk. Við bjóðum gjarnan til veislu til að fagna sumrið og njótum þess í botn. Það er gaman að halda í hefðir og hafa tilefni til að kalla í fólkið sitt og gleðjast saman.

Heimildir eru fengnar úr bók Saga dagana eftir Árna Björnsson og á veraldarvefnum