Haustið 2020 keyptu Þórunn og eiginmaður hennar, Brandur, bústaðinn til flutnings. „Við vorum búin að leita að réttu lóðinni í sirka þrjú ár, þegar við fundum loksins þessa. Útsýnið er eins og málverk, milljón dollara útsýni.“ Þórunn hefur staðið í framkvæmdum síðan og gert bústaðinn að sínum, en segist þó ætla að gera meira. „Við erum búin að gera margt, bæði inni og utandyra en það er líka margt eftir, þetta verður örugglega smá eilífðarverkefni fyrir manneskju eins og mig. Mér finnst mjög gaman að því að gefa gömlum hlutum og húsgögnum nýtt útlit, við notuðum töluvert af því sem var til staðar, mér finnst svo mikill óþarfi að henda ef húsgögn, innréttingar og annað er heilt.“

Bretti.jpg

Fallegur páskakrans prýðir eldhúsið með viðarbretti í bakgrunni. Þórunn hugar að hverju smáatriði.

Svarti liturinn ríkjandi

„Svarti liturinn ræður ríkjum í bústaðnum og við notuðum sama lakk á alla skápa, hurðar, eldhúsinnréttingu, bita í lofti og gluggapósta og erum ánægð með útkomuna.“

Þórunn er þekkt fyrir útsjónarsemi þegar kemur að því að gera gamla hluti að nýjum eins og hún hefur gert hér. „Við ákváðum til að mynda að halda eldhúsinnréttingunni en lakka hana og skipta um höldur,“ segir Þórunn og bætir því við að í staðinn hafi þau getað leyft sér að kaupa ný eldhústæki og tól sem þau langaði í. Svo fengu þau sér nýja borðplötu á innréttinguna ásamt nýrri borðplötu á borðstofuborðið sem er á fæti sem Þórunn gerði upp. „Mér þykir sérstaklega vænt um þetta borð, borðfóturinn er úr gömlu borðstofusetti frá mömmu og pabba, sem ég gerði svartan.“

Páskaborðið.jpg

Páskaborð Þórunnar er einstaklega fallegt. Diskar og tauservíettur eru frá HM Home, gylltu eggin, kertin, svarta skálin og kransinn frá Magnolíu. Glösin fékk Þórunn í Ilvu. Kvarsítsteinninn í borðplötunni er frá Granítsmiðjunni og heitir London Smoke.

Skemmtilegt og krefjandi

Húsið átti alltaf að verða svart með svörtum gluggum og hurðum og ljósum palli. „Inni var allt önnur pæling í fyrstu. Ég ætlaði að hafa allt öðruvísi, mig langaði að mála eða bæsa allan panilinn, en svo ákvað ég að fá vinkonur mínar í Magnoliu með mér í lið. Þær komu með margar góðar hugmyndir sem ég vann svo út frá. Okkur langaði líka að hafa bústaðinn ekki alveg eins og er heima hjá okkur.“

Hjónaherbergið .jpg

Herbergi þeirra hjóna er einfalt og hlýlegt þar sem svartir litatónar blandast með viðnum á veggjum og lofti á einstaklega skemmtilegan hátt.

Herbergi prinsessunnar .jpg

Herbergi yngstu prinsessunnar er einkar vel heppnað og rýmið að fullu nýtt. Fölbleiki liturinn fær að njóta sín hér í bland við viðinn og gráan.

Þórunn segir að það hafi verið áskorun að fara í þetta verkefni. „Þetta er búið að vera gaman en krefjandi engu að síður, við erum búin að læra margt og þetta var líka í fyrsta skiptið sem við fluttum hús í heilu lagi. Við erum með margt á döfinni enda á mikið eftir að gera og við eigum eftir að klára að græja pallinn, útieldhús og margt annað. Ég sé mest um að græja inni við og húsgögnin úti, en maðurinn minn sér um helstu verkefni utandyra. Svo eigum við líka eftir að græja litla gestahúsið sem á að vera hér á lóðinni.“

Páskakakan.jpg

Páskakakan fangar augað. Kökuna keypti Þórunn hjá Sætum syndum og skreytti sjálf. Hún pantaði súkkulaðiköku með ljósu kremi með gylltum keim í stíl við litaþemað. Toppaði með páskakanínu.

Páskaskraut í jarðlitunum

Þórunn er annálaður fagurkeri og er bústaðurinn kominn í páskabúninginn. „Fallega borðið mitt réð miklu um hvernig litapallettan varð til fyrir þessa páskahátíð.

Ljósir brúnir og gráir tónar með gylltu ráða ríkjum. Svo finnst mér ávallt fallegt að vera með smá grænt með. Mér finnst allir jarðlitir fallegir í páskaskrauti, gyllt og silfur líka, en er ekki mikið fyrir mikla liti. Mér finnst þó þessi fallegi sinnepsguli töff og flott að blanda honum saman við grænt og svart. Þegar kemur að blómaskreytingum nota ég mest greinar í vasa og blanda grænu með og skreyti svo með fallegu páskaskrauti, látlaus og fallegur stíll heillar mig.“ ■

Tómatsúpa.jpg

Tómatsúpa

Þórunn er iðin við að framreiða ljúffengar og huggulegar kræsingar í sveitinni og býður hér lesendum upp á eina af sínum uppáhaldssúpum sem tilvalið er að bjóða upp á á fallegum degi.

2 öskjur kirsuberjatómatar
1–2 dósir niðursoðnir tómatar
1 flaska tómatsósa
500 ml rjómi
1 l vatn
2–4 teningar, grænmetis- eða kjötkraftur, eða fljótandi
1 stór hvítur laukur, smátt saxaður
1 búnt fersk basilíka
1 rautt chilli, smátt saxað
1 kína-hvítlaukur (eða 5 stk. minni)
2 msk. tómatpúrra
Salt og pipar eftir smekk
Ferskur mozzarella-ostur, skorinn í litlar sneiðar

Steikið laukinn í ólífuolíu, bætið við kirsuberjatómötum. Lækkið hitann og leyfið þessu að malla á lágum hita. Kremjið síðan tómatana og bætið við hvítlauk og chilli. Bætið við tómatsósunni, niðursoðnu tómötunum, soði og að lokum rjómanum. Leyfið suðunni að koma upp og slökkvið síðan. Setjið basilíku út í eftir smekk.


Basilíkupestó
1 dl ólífuolía
2-3 hvítlauksrif
Salt og pipar eftir smekk
5-6 basilíkulauf

Setjið allt saman í matvinnsluvél og blandið vel saman.

Berið súpuna fram skreytta með basilíkulaufum, mozzarella-sneiðum og toppið með basilíkupestói. Upplagt að bjóða upp á súrdeigs-baquette með súpunni og basilíkupestóið steinliggur með súrdeigs-baquette.