„Fyrir nokkrum árum fór fréttamynd af dreng sem hafði drukknað við strendur Grikklands eins og eldur í sinu um heiminn. Mér var mjög brugðið og ákvað að gera málverk eftir fréttamyndum frá stríðshrjáðum löndum þar sem börn væru í forgrunni. Ég byrjaði á að gúgla „wounded child in Syria“ en ráðlegg engum að gera það, hryllingurinn sem þar birtist er ólýsanlegur. Ég skoðaði fjölda mynda en fékk líka aðgang að myndbanka UNICEF og nokkrar myndanna á sýningunni koma þaðan.

Ég vann lengi við umbrot og hafði séð hryllilegar myndir áður og þess vegna held ég að ég hafi getað horft á þær. Sumar myndanna lifa enn með mér og sumar voru ekki málaðar af því að þær voru svo hræðilega óhuggulegar,“ segir Jón.

Stríð alls staðar eins

Hann segir að það hafi verið tilfinningalega erfitt fyrir sig að mála myndirnar. „Þetta eru myndir af börnum í stríði, mjög sterkar ljósmyndir. Málverkið mildar þessar aðstæður aðeins og ég vildi hafa hluti hjá börnunum, eins og leikföng og dýr, til að hugga þau og reyna þannig að draga athyglina frá sorginni. Myndirnar eru af börnum víða um heim, flestar frá Aleppo í Sýrlandi en mér finnst ekki skipta máli hvaðan myndirnar koma. Stríð er alls staðar eins.“

Safnað fyrir prentun

Hann fyrirhugar að gefa út bók með myndunum og safnar fyrir prentun hennar á Karolina Fund. Verkefnið er til styrktar UNICEF sem er með söfnun fyrir börn á flótta undan stríðinu í Úkraínu. Didda Jónsdóttir skáld er höfundur texta í bókinni. „Mig vantaði sterkan textahöfund og skáld og Ari Alexander bróðir stakk upp á Diddu. Það sýndi sig að hún var alveg rétta manneskjan í þetta verkefni,“ segir Jón. Myndlistarmaðurinn Jón B. K. Ransu skrifar inngang bókarinnar.

Jón Magnússon fæddist árið 1966 í Reykjavík. Hann stundaði nám við Parsons School of Design í París frá 1988-1992. Þar lauk hann prófi með BFA gráðu í myndskreytingu. Hann stundaði síðan nám við Myndlistaskóla Reykjavíkur og lauk prófi árið 2018. Hann hefur haldið einkasýningar hér á landi og erlendis og tekið þátt í fjölda samsýninga. Sýning hans á Mokka stendur til 6. júlí.