Net­verjinn Gunnar A. Birgis­son hóf á­huga­verða, létta en um leið mikil­væga deilu með færslu sem hann birti á föstu­daginn var inni á Face­book hópnum Martartips. Þar spurði hann ein­fald­lega hvort Ís­lendingar setji sína sultu ofan á ostinn á rista brauði hvers dags eða undir hann.

Hann segir að heima hjá sér hafi osturinn alltaf verið settur ofan á sultuna. „En var ég staddur við morgun­verðar­borð um daginn þar sem góður vinur minn setti sultuna ofan á ostinn??“

Gunnar segist á léttu nótunum hafa haldið að vinur sinn væri undar­legur sér­vitringur þar sem hann væri að norðan. „En svo fór ég að­eins að ræða þetta við fólk og komst að því að það er til fleyrra fólk sem hagar sér svona...“

Að lokum spyr Gunnar hvernig þessu sé háttað hjá öðrum. Ó­hætt er að segja að allt hafi farið á fullt í hópnum þar sem Ís­lendingar keppast við að svara Gunnari. Um þúsund um­mæli hafa birst við færsluna og ljóst að fólk er ekki sam­mála en um stór­skemmti­lega og létta um­ræðu er að ræða.

Sitt sýnist hverjum

„Ég var að borða rista­brauð með osti og rifs­berja­hlaupi og setti það ofan á ostinn... svo rann hlaupið bara af ostinum... Ég hef lært mína lexíu,“ svarar einn í færslunni.

Annar er hreint ekki sam­mála. „Að­eins kjánar setja sultuna ofan­í smjörið og maka skeiðina út og stinga smjör­meingaðri ofan­í krukkuna þess­vegna er það al­menn skyn­semi að setja sultuna ofan­á ostinn,“ segir sá og fær 79 við­brögð, finnst flestum þetta mjög fyndin um­mæli.

Sá þriðji segir að það vanti hrein­lega skífu­rit til að greina svörin. Hér sé um að ræða stærstu könnun á Ís­landi.

„Er hægt að fá niðurstöður í skífuriti vegna þess að hér höfum við mestu þátttöku í könnun á Íslandi 🤣 Fólk sem svarar með upphrópunarmerkjum og í hástöfum fá sér pól/skífu í skífuritinu.“