Þegar súðbyrðingurinn komst á skrá Menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) í vikunni, fylltust Íslendingar ýmist stolti, eða flettu því upp hvað súðbyrðingur væri nú eiginlega. Um er að ræða dæmigerðan norrænan trébát sem hefur fylgt Íslendingum og Norðurlandabúum um aldaraðir og hefur mikinn innbyrðis breytileika sem ræðst af staðháttum og tilgangi, hvort sem þeir voru til fiskveiða, vöruflutninga eða fólksflutninga.

„Kannski er merkasta þýðingin fyrir þennan áfanga að nú vita allir hvað súðbyrðingur er,“ segir Sigurbjörg Árnadóttir, formaður Vitafélagsins – íslenskrar strandmenningar. „Við tölum sjaldan um súðbyrðing í íslensku máli, iðulega tölum við um árabáta, trébáta og trillur.“

Sigurbjörg útskýrir að súðbyrðingurinn einkennist af smíði hans.

„Þetta gengur út á byggingaraðferð bátsins, hvernig ein fjöl skarast við aðra,“ segir hún. „Þá tölum við um súðbyrtan bát.“

Hvati til menningarvörslu

Þá er verkþekkingin að baki súðbyrðingnum komin á lista UNESCO yfir menningarerfðir mannkyns, sem ná yfir þýðingarmikla starfshætti víða í heiminum. En hvaða þýðingu hefur það að menningararfur komist á þessa skrá?

„Þetta hefur margþætta merkingu,“ segir Sigurbjörg. „Þetta krefst þess að við höldum áfram að viðhalda þessari handverkshefð og menningararfleifð sem er einstök.“

Sigurbjörg vonar að viðurkenning súðbyrðingsins verði hvati til þess að við förum aftur að kenna bátasmíði í verkmenntaskólum og víðar á landinu.

„Það er erfitt að læra bátasmíði í dag, við erum búin að glata niður kennsluefni og öðru,“ segir hún, en bætir við að þó sé einn bátasmiður að útskrifast á næstu dögum. „Það er afskaplega gleðilegt.“

Sigurbjörg vonast til að Íslendingar nýti bæði báta og aðra þætti strandmenningar til nýsköpunar og atvinnuuppbyggingar víða um land. Hún nefnir Ósvör í Bolungarvík, sem samanstendur af tvöfaldri 19. aldar verbúð, salthúsi, fiskreit og þurrkhjalli, sem gott dæmi um hvernig nota megi menningar­arfleifðina