Að tína ber er hin besta skemmtun. Öll fjölskyldan getur tekið þátt og fær í sig hreint loft í íslenskri náttúru um leið. Þar fyrir utan eru berin vítamínrík og holl. Gaman er að taka með sér nesti og njóta náttúrunnar á milli þess sem berin eru leituð uppi. Þótt hægt sé að kaupa bláber allt árið eru þau íslensku miklu betri. Bláberin eru oft farin að þroskast vel um miðjan ágúst ef veður er gott. Það má vel tína berin með höndunum en það er fljótlegra með þar til gerðri berjatínu. Bláber má frysta og geyma til vetrarins.

Hér er uppskrift að bláberjaköku sem er æðislega góð og frábært að nota nýtínd ber þegar þar að kemur. Þangað til má kaupa ber og prufa kökuna um helgina.

Bláberjakaka

350 g hveiti

200 g sykur

2 tsk. fínhakkaður sítrónubörkur

1 tsk. lyftiduft

220 g kalt smjör, skorið í bita

1 egg

Fylling

500 g bláber, skolið berin fyrir notkun

50 g sykur

4 tsk. kartöflumjöl

Hitið ofninn í 180°C.

Setjið hveiti, sykur, lyftiduft og sítrónubörk í matvinnsluvél og blandið saman. Setjið því næst kalt smjör saman við og hrærið. Þá er eggið sett út í og hrært aftur.

Takið helminginn af deiginu og setjið í form sem er klætt með bökunarpappír. Þrýstið deiginu fallega yfir formið með fingrunum. Setjið bláberin í skál með sykri, kartöflumjöli og sítrónuberki og hrærið varlega saman. Dreifið berjunum jafnt yfir deigið. Dreifið því sem eftir er af deiginu yfir kökuna. Má vera gróflega gert því þetta er mulningur (crumble).

Bakið kökuna í um það bil 40 mínútur eða þar til hún verður gullinbrún. Látið kólna aðeins áður en hún er borin fram. Kakan er góð með vanilluís eða þeyttum rjóma. Það má alveg skreyta diskinn með ferskum bláberjum, hindberjum eða jarðarberjum.