Breskir lista­gagn­rýn­endur hjóla í nýju styttuna af Díönu prinsessu sem af­hjúpuð var við Kensington höll í gær. Á vef Daily Mail er vitnað til orða­nokkurra sem segja styttuna „vand­ræða­legt og líf­laust líkneski.“

Prinsessan hefði orðið 60 ára gömul í gær. Eins og al­þjóð veit lést hún í bíl­slysi í París árið 1997. Synir hennar þeir Vil­hjálmur og Harry af­hjúpuðu styttuna í gær en báðir, sér­stak­lega sá síðar­nefndi hafa rætt opin­skátt um þau á­hrif sem frá­fall hennar hafði á þá. Báðir voru þeir enda barn­ungir þegar hún lést.

Í um­fjöllun Daily Mail er vitnað til gagn­rýn­enda úr breskum dag­blöðum dagsins. Einn gagn­rýn­enda segir styttuna „and­laust flikki af bulli.“ Þar er á ferðinni Jon­a­t­han Jones sem skrifar í Guar­dian og segir styttuna karakter­lausa og ýta undir væmna Díönu­dýrkun.

Þá segja ein­hverjir gagn­rýn­endur að prinsessan sé hálf fúl á svip á styttunni. Að styttan „fangi ein­fald­lega ekki töfra hennar.“ Þá segir Alastair Sooke hjá Telegraph að styttan minni sig „minna á Madonnu, meira á bar­daga­kappa í list­líki með vott af Sovíet.“

Styttan hefur farið misvel í Breta.
Fréttablaðið/Getty