Svanhildur Lóa Bergsveinsdóttir, slagverks- og trommuleikari, hlaut nýlega styrk úr Minningarsjóði Kristjáns Eldjárns gítarleikara.

„Þetta er mikill heiður, hvatning og virkilega skemmtilegt,“ segir Svanhildur.

Hún byrjaði í tónlistarskóla sex ára gömul, þá á blokkflautu. „Þegar ég var átta ára, um leið og ég mátti, byrjaði ég í Skólahljómsveit Grafarvogs að læra á trommur og slagverk.“

Spurð hvað hafi heillað hana við trommurnar segir hún: „Þegar ég var fjögurra ára var ég búin að ákveða mig. Þetta var hljóðfærið sem heillaði mig mest. Ég var bankandi í allt bæði heima og í skólanum.“

Svanhildur hefur komið víða við í tónlistinni og leikið með fjölmörgum listamönnum. Hún er í hljómsveitinni sem spilar í Kardemommubænum sem Þjóðleikhúsið hefur sýnt við miklar vinsældir. „Ég hef alltaf verið heilluð af leikhúsumhverfinu og það er mjög gaman að fá að starfa í því, enda var það lengi draumur hjá mér.“

COVID hefur sannarlega sett sitt mark á tónlistarlífið í landinu. „Ég byrjaði að kenna síðastliðið haust, það kom sér vel þegar verkefnin byrjuðu að falla niður. Ég nýtti tímann líka vel í að æfa mig og taka upp alls konar tónlist með mismunandi tónlistarfólki. Þannig að ég náði að gera slatta. Nú er allt að fara í gang og ég er byrjuð að spila fyrir fólk aftur, sem ég hef saknað mikið.“

Hún segir ýmislegt fram undan. „Leikhúsið er að byrja aftur, svo er margt fram undan með til dæmis söngkonunni Salóme Katrínu og Cell7 rappara, meðal annars nokkrar stuttar ferðir erlendis að spila. Það er nokkuð pakkaður vetur fram undan, sem er mjög gaman.“

Svanhildur er 24 ára og spurð hvort hún ætli að gera tónlistina að lífsstarfi segir hún: „Algjörlega. Ég hef alltaf ætlað mér að vinna við þetta. Þess vegna er þessi styrkur svo góð hvatning. Hann minnir mig á að það sé hægt og að ég sé að gera eitthvað sem skiptir máli.“