Janus heilsuefling er ráðgjafar- og þjónustufyrirtæki sem stofnað var árið 2016 til að nýta niðurstöður doktorsrannsóknar Janusar Guðlaugssonar: Fjölþætt heilsuefling – Leið að farsælli öldrun.

Hvað getur fólk á efri árum gert til að njóta lífsins, búa lengur heima, sinna athöfnum daglegs lífs lengur, vera lengur úti á vinnumarkaði og bæta lífsgæði sín?

„Helstu grundvallarþættir til að verða við þessum óskum eldri einstaklinga er dagleg hreyfing, góð næring, fullnægjandi svefn, félagsskapur og jákvæð hugsun,“ segir doktor Janus.

„Mikilvægt er, varðandi daglega hreyfingu, að fylgja leiðbeiningum alþjóðlegra heilbrigðisyfirvalda og ná 30 mínútna daglegri hreyfingu og stunda styrktarþjálfun tvisvar til þrisvar sinnum í viku. Við erum að sjá einstaklega jákvæðar niðurstöður okkar þátttakenda fylgi þeir þessum fyrirmælum,“ segir Janus.

Hann bætir við: „Styrktarþjálfunin er sérstaklega mikilvæg vegna hægfara vöðvarýrnunar sem á sér stað með hækkandi aldri, sér í lagi eftir 60 ára aldurinn. Því er styrktarþjálfun lykilatriði og eitt af okkar aðalsmerkjum til að ná þessum markmiðum. Þá erum við með sérhæfðar heilsufarsmælingar til að fylgjast með hverjum og einum,“ segir Janus.

Um næringarþáttinn segir hann: „Næringin er einnig lykilatriði og fer fræðslan meðal annars fram með fræðsluerindum næringarfræðinga á okkar vegum. Sérstaklega þarf að huga að próteinríkri næringu þar sem hún kemur til með að svara þörfum líkamans um uppbyggingu á vöðvamassa.“

Kenna sjálfstætt vinnulag

Fjölþætt heilsuefling fyrir 65 ára og eldri er verkefni sem Janus og hans fólk hefur hrundið í framkvæmd í samvinnu við nokkur sveitarfélög. Spurður hvert sé megininntak verkefnisins segir Janus: „Að koma á fót markvissri heilsueflingu fyrir eldri aldurshópa með lýðheilsutengdu inngripi sem byggt er á akademískum og raunprófanlegum aðferðum. Lífsstílsbreyting er langtíma verkefni og því mikilvægt að kenna eldri borgurum sjálfstætt vinnulag við eigin heilsueflingu. Því fyrr sem við grípum sjálf inn í heilsuna með heilsutengdum forvörnum má gera ráð fyrir því að við þurfum síður eða seinna á hjúkrunarleiðinni eða heilbrigðiskerfinu að halda,“ segir Janus.

Hver eru skammtímamarkmið verkefnisins?

„Þau er til tveggja ára og fela í sér að bæta heilsutengdar forvarnir, efla hreyfifærni, bæta styrk og þol, auka líkamlega afkastagetu, bæta heilsu og lífsgæði og gera hina eldri sjálfstæða í eigin heilsueflingu með bættu heilsulæsi og sjálfbærni,“ segir Janus.

Um langtímamarkmiðið segir Janus: „Að geta tekist lengur á við athafnir daglegs lífs þrátt fyrir hækkandi aldur, að geta búið lengur í sjálfstæðri búsetu, hafa möguleika á að starfa lengur á vinnumarkaði, geta komið í veg fyrir eða seinkað heimaþjónustu eða innlögn á dvalar- og hjúkrunarheimili og að aðstoða ríki og sveitarfélög við að efla heilsu og lífsgæði eldri aldurshópa.“

Hvaða sveitarfélög hafa innleitt verkefnið?

„Í dag höfum við innleitt verkefni í sjö sveitarfélögum sem og á opnum markaði á höfuðborgarsvæðinu. Á öllum stöðum höfum við fengið góða svörun auk þess sem við fylgjumst vel með okkar þátttakendum í gegnum markvissar heilsufarsmælingar. Sveitarfélögin sem um ræðir eru Reykjanesbær, Hafnarfjörður, Vestmannaeyjar, Grindavík, Seltjarnarnes, Garðabær, Fjarðabyggð og opinn markaður á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Janus.

Hvað með að innleiða verkefnið á landsvísu?

„Við höfum innleitt verkefnið til að mynda í Vestmannaeyjum og hefur það gengið mjög vel í samvinnu við fagfólk og sveitarfélagið í Eyjum. Nýlega var verkefnið innleitt í Fjarðabyggð og gekk sú innleiðing einstaklega vel þar sem þátttaka fór fram úr björtustu vonum. Hér sýndum við í fyrsta skipti að innleiða má verkefnið í dreifðar byggðir landsins án þess að það komi niður á gæðum þess,“ bætir Janus við.

Hvað með áhuga stjórnvalda á verkefninu?

„Verkefnið er, svo best ég viti, eina raunprófanlega verkefnið á sviði heilsutengdra forvarna fyrir þennan aldurshóp sem hefur staðist akademíska skoðun. Verkefnið hefur fengið alþjóðlega viðurkenningu, bæði hjá Evrópusambandinu í samvinnu við Embætti landlæknis sem og viðurkenningu í nýrri skýrslu OECD þar sem fjallað er um heilsufarslegan sem fjárhagslegan ávinning þess. Það er því spurning hvort lausnin við vanda heilbrigðiskerfisins felist í þessu verkefni,“ segir Janus að lokum.