Fjórir af hverjum fimm Norðmönnum æfa minnst einu sinni í viku. Þegar á heildina er litið eru fleiri sem hreyfa sig reglubundið en áður var. Norðmenn hafa alltaf verið miklir útivistarmenn. Staðfest hefur verið í könnunum að um 80% Norðmanna stundi einhverja hreyfingu og þannig hefur það verið allt frá árinu 2013. Aðeins einn hluti hreyfingar hefur breyst. Mun fleiri leggja nú áherslu á styrktaræfingar.

Í nýlegri könnun svöruðu 46% að þau hefðu hreyft sig reglubundið á þessu ári á meðan það voru 40% árið 2016 og 18% árið 2001. Þá kom fram að þeim sem eru eldri en 67 ára og stunda styrktaræfingar hefur fjölgað úr þremur prósentum árið 2001 í 24% á þessu ári. Heldur fleiri konur stunda styrktaræfingar en karlmenn.

Lífsnauðsynleg hreyfing

Jakob Linhave, sviðsstjóri hjá norska landlæknisembættinu, bendir á að margir noti líkamann lítið í daglegu lífi. Um 60% fullorðinna vinna kyrrsetustörf þar sem stoðkerfið fær lítið álag. „Það er mjög jákvætt að fleiri Norðmenn stundi styrktaræfingar,“ segir hann. „Þó eru enn of margir sem hreyfa sig ekkert. Fólk ætti að stunda einhvers konar hreyfingu að minnsta kosti tvisvar í viku. Sífellt fleiri hafa verið að vakna til vitundar um mikilvægi hreyfingar og margir hafa aukinn áhuga á heilsufari sínu.“

Leggja ætti mikla áherslu á það við eldra fólk að það stundi hreyfingu.

Vísindamenn sem framkvæmdu könnunina segja að styrktaræfingar séu mjög góðar fyrir alla. Þær styrki bein, vöðva, liði, hjarta, lungu, jafnvægi og stuðli að betri meltingu og svefni auk þess að efla sjálfstraust. Þá getur styrktarþjálfun hjálpað við þunglyndi. Styrktarþjálfun er því mjög áhrifarík heilsufarslega séð. Þá sýndi rannsókn frá árinu 2016 að styrktarþjálfun getur dregið úr áhrifum þess að fá heilabilun. Öll hreyfing er til bóta. Í raun dugar að ganga rösklega í 15 mínútur daglega til að fá hreyfingu á kroppinn.

Aldraðir ættu að stunda æfingar

Hjá norska Íþróttaháskólanum hefur einnig verið í gangi rannsókn sem er doktorsverkefni Sigve Nyvik Aas um styrktaræfingar hjá öldruðum. Hann hefur stúderað hvað vöðvastyrktaræfingar geta gert fyrir fólk þegar það eldist. Rannsóknin hefur sýnt að með reglubundnum styrktaræfingum geta aldraðir orðið mun betur í stakk búnir til að hugsa um sig. Sive segir að með styrktarþjálfun fái aldraðir góða líkamsræktar-, hreyfigetu- og jafnvægisþjálfun. Aldraðir missa styrk, verða óstöðugir og geta ekki hreyft sig eins og þeir gerðu áður eins og vitað er. Það getur til dæmis verið erfitt að standa upp úr stól og halda jafnvæginu. Mikil hætta er því á falli sem getur haft alvarlegar afleiðingar. „Það er hægt að þjálfa líkamann og koma í veg fyrir fall,“ segir Sigve. Rannsóknin hefur sýnt að þótt fólk sé orðið mjög aldrað geti það með styrktaræfingum náð ótrúlega góðum árangri, meðal annars styrkt beinin.

Í fyrsta hópnum sem hann þjálfaði var meðalaldur 85 ára. Þeir tóku þátt í tíu vikna æfingaprógrammi. Allir bjuggu heima og voru ágætlega frískir. Fólkið æfði í hálfa klukkustund þrisvar í viku. Allir bættu á sig vöðvamassa og juku gönguhraða sinn ásamt því að fá betra jafnvægi.

Í öðrum hópi voru þátttakendur verr á sig komnir. Helmingur býr á hjúkrunarheimilum og flestir þurftu að nota göngugrind. Æfingar reyndust þeim erfiðari og meira en fjórði hver hætti æfingum áður en tímabilið var búið. Brottfallið var oft vegna verkja eða annarra heilsufarskvilla. Það var samt ekkert samasemmerki á milli æfinga og aldurs. Meira að segja níræðir gátu haft gott af styrktaræfingunum væru þeir að öðru leyti sæmilega hressir. Mikilvægt er að huga að góðu æfingakerfi þegar fólk eldist. Það getur gert efri árin mun betri.

Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að styrktaræfingar eru ákaflega jákvæðar fyrir eldra fólk og geta styrkt það líkamlega á stuttum tíma. Lífsgæðin aukast hratt og samfélagslega er það frábært að fólk geti verið sem lengst heima og hugsað um sig sjálft.