RÚV sýndi annan þátt af átta í sænsk-íslensku spennuþáttaröðinni Ísalög á sunnudagskvöld. Leikstjórar þáttanna eru þrír og Guðjón Jónsson eini Íslendingurinn. Þættirnir eru samframleiðsluverkefni Sagafilm og Yellowbird í Svíþjóð og eru að mestu teknir upp á Íslandi þótt sögunni vindi aðallega fram á Grænlandi þar sem Guðjón sá alfarið um tökurnarnar.

„Við erum með eitthvað um 800 brelluskot í þessu. Allt frá því að hreinsa bara leikara, sem ákveðið var að kynna síðar til sögunnar, út úr skoti og út í að skipta um SMS-skilaboð í síma eða setja inn ísjaka eða ísbirni,“ segir Guðjón sem stjórnaði tölvubrellunum að leikstjórnarskyldum loknum.

Happafleyið Lance

„Við breyttum Stykkishólmi í hálfgert kvikmyndaþorp í tvo mánuði meðan á tökum stóð. Bæjarbúar tóku okkur mjög vel og við erum þeim sérstaklega þakklát fyrir hlýlegar viðtökur en við fengum að setja upp leikmyndir um allan bæ, breyta skiltum og koma með ísbrjót frá Noregi inn í höfnina.

Guðjón segir ísbrjótinn RSV Per Berger gegna mikilvægu hlutverki í þáttunum en óhætt er að segja að honum hafi verið landað í Stykkishólmshöfn eftir krókaleiðum.

„Mörgum mánuðum fyrir tökur var ég búinn að vera að reyna að fá þetta skip, Lance, til að nota fyrir Per Berger því það passaði akkúrat við tegund skipsins í handritinu.

Skipið er frá Tromsö í Noregi og kostnaðurinn við að sigla því til Íslands var of mikill en fyrir röð tilviljana gekk skipið í gegnum eigendaskipti og það vildi svo skemmtilega til að það var sent í slipp á Íslandi að ósk nýju eigendanna þar sem þeir fengu besta dílinn í að mála það. Við fréttum af skipinu í Reykjavík, fórum í málið og fengum skipið sem ég hafði óskað mér.“

Hnattræn truflun

Guðjón segir vinda yfirleitt hafa blásið með þeim þótt gróðurhúsaáhrifin hafi sett strik í nákvæma útreikninga. „Við vorum ótrúlega heppin með veður vegna þess að það var nefnilega oft alveg snarvitlaust. Það gerði til dæmis brjálaðan storm fyrsta tökudaginn okkar á hálendinu og það var akkúrat veðrið sem okkur vantaði til að ná þeim áhrifum sem við vildum úr senunum,“ segir Guðjón sem var þó við öllu búinn.

„Við vorum samt með allar öflugustu vindvélarnar á landinu á svæðinu og notuðum þær stundum en ekki nærri því jafn mikið og við áttum von á. Það var samt nauðsynleg trygging að vera með allt til taks. Maður treystir ekki á veður á Íslandi.“

Tassilaq á austurströnd Grænlands er miðpunktur atburðarásarinnar og þangað stefndi Grænlandsleiðangur Guðjóns þegar óvænt hlýnaði í kolunum, eða ísnum öllu heldur.

„Við lentum í smá baráttu við hnattræna hlýnun því að við vorum á leiðinni til Tassilaq eftir að hafa ráðfært okkur við sérfræðinga og skoðað gervihnattarmyndir frá síðustu árum og vissum nákvæmlega á hvaða tímapunkti við ættum að vera þarna,“ segir Guðjón.

„Nema hvað, að svo bara hreinsast fjörðurinn af ís og allur snjór fer bara á einum degi svona rúmum mánuði fyrr en venjulega og það náttúrlega setur okkar plön í uppnám þar sem þetta er nú svona vetrarsería.“

Rölt um ísbjarnaslóðir

Guðjón segir að ákveðið hafi verið að bíða í tvær til þrjár vikur og sjá til hvað myndi gerast í veðurkerfunum í kring en þar sem ekkert benti til þess að ísinn myndi birtast aftur var ákveðið að klára dæmið í Scoresbysundi.

„Þannig að við leigðum okkur flugvél og flugum til Scoresbysund og gerðum þetta í Ittoqqortoormiit. Það var mjög áhugavert,“ segir Guðjón en þorpið er það afskekktasta í veröldinni.

„Við lentum á Nerlerit Inaat sem er eini flugvöllurinn í fjarðarkerfinu í Scoresbysundi en engir vegir liggja til eða frá honum og engin önnur þjónusta er í nágrenninu. Þarna eru ísbirnir tíðir gestir svo maður þurfti að vera var um sig þegar maður rölti á milli bygginga.“

Hólmurinn í Tassilaq

Guðjón sótti mikið umhverfismyndefni til Ittoqqortoormiit sem var síðan notað til þess að breyta leikmyndinni á Íslandi í Grænland. „Við skeyttum grænlenska bænum saman við Stykkishólm. Það höfðu 36 ísbirnir heimsótt bæinn þennan veturinn en þeir mega bara drepa 35 á hverju ári og einn var því flæmdur burt með skothvellum á meðan við vorum á svæðinu.“

Ittoqqortoormiit er sem fyrr segir eitt afskekktasta þorp í heimi og einangraðasti staður sem Guðjón hefur heimsótt þótt víðförull sé. „Þarna eru um 800 kílómetrar í næsta bæ á Grænlandi og ég lenti í vandræðum þegar ég kom þarna því það var enginn veitingastaður í rekstri, búið að loka matvörubúðinni og hana átti ekki að opna aftur fyrr en eftir tvo daga.

Ég varð því að bregða á það ráð að plata tengiliðinn minn á staðnum til að múta starfsmanni búðarinnar til að redda okkur. Það hafðist en við keyptum eitthvað af frosnum vistum sem komu með síðasta skipi átta mánuðum áður en þangað koma aðeins tvö skip á ári. Bæði yfir sumartímann.“

Ísbrjóturinn Lance komst loksins í sitt mikilvæga hlutverk sem RSV Per Berger eftir að hafa verið siglt eftir krókaleiðum til Stykkishólmshafnar.
Við mynduðum mikið af umhverfisefni í Ittoqqortoormiit. Til að breyta leikmyndinni á íslandi í Grænland skeyttum við Grænlenska bænum saman við Stykkishólm. Það höfðu 36 ísbirnir heimsótt bæinn þennan veturinn
Guðjón sótti umhverfismyndefni mikið til á austurströnd Grænlands.
Okkar leið lá til Nerlerit Inaat sem er afskekktasti staður sem við höfðum komið á. Á fimmta degi ákváðum við að fara í bæjarferð en það þýddi annaðhvort tveggja klukkustunda vélsleðaferð eða þyrluferð. Við fórum á þyrlunni og vorum í nokkra daga.
Ittoqqortoormiit í Scoresbysund er eitt afskekktasta þorp í heimi. Þetta er einangraðasta svæði sem ég hef komið á. Þarna eru um 800km í næsta bæ á Grænlandi.
Leikmyndadeildin kom húsi fyrir á hárréttum stað á hálendinu í hvítu og fallegu umhverfi sem þurfti eðlilega lítið að að eiga við í eftirvinnslunni.
Lena Endre og Johannes Kuhnke koma út úr þyrlu í senu sem virðist í grunninn mjög einföld en var í raun tekin á þremur mismunandi stöðum allt eftir því hvernig leikarar sneru og í hvaða átt þeir horfðu.