Þann 13. ágúst verður blásið til Sturlu­há­tíðar á Staðar­hóli í Dala­byggð þar sem fjallað verður um frægasta á­búanda jarðarinnar, Sturlu Þórðar­son, skáld, sagna­ritara og einn helsta höfðingja Sturlunga­aldar. Það er Sturlu­fé­lagið sem stendur fyrir við­burðinum og verður fjöl­breytt dag­skrá í boði.

Há­tíðin hefst með sögu­göngu um Staðar­hól og munu þar forn­leifa­fræðingarnir Guð­rún Alda Gísla­dóttir og Birna Lárus­dóttir segja frá sögu staðarins, fara yfir stað­hætti og þær rann­sóknir sem fara þar nú fram.

Einn af með­limum Sturlu­fé­lagsins er rit­höfundurinn Einar Kára­son.

„Svavar Gests­son stofnaði fé­lagið upp­runa­lega. En menn hafa verið að gera sér það æ betur ljóst á síðustu árum að Sturla Þórðar­son er klár­lega einn af mikil­vægustu rit­höfundum Ís­lands­sögunnar. Hann er á pari á við aðra höfunda eins og Snorra Sturlu­son og Hall­dór Lax­ness, svo eitt­hvað sé nefnt,“ segir Einar. Sjálfur verður hann með fyrir­lestur á há­tíðinni sem nefnist Í forn­sögum falla öll vötn til Breiða­fjarðar.

Svavar Gestsson heitinn, stofnandi Sturlufélagsins.
Mynd/Benedikt Svavarsson

Þakkar­skuld við Sturlu

Einar segist standa í þakkar­skuld við Sturlu en hann hefur marg­oft nýtt sér sagna­arf hans í eigin skáld­skap í skáld­sögum eins og Ó­vina­fögnuði, Ofsa og Skálm­öld.

„Við Ís­lendingar stöndum náttúr­lega öll í þakkar­skuld við Sturlu en það væru svo miklar eyður í okkar sögu ef verka hans hefði ekki notið við,“ segir Einar og telur upp mörg af þekktustu verkum Sturlu. „Við náttúr­lega þekkjum ýmsar bækur sem við vitum að hann skrifaði, eins og til dæmis Sturlungu, Land­náma­sögu, Kristni­sögu og hann skrifaði einnig sögu Noregs­konunga. Einnig skrifaði Sigurður Nor­dal merki­legt rit þar sem hann sýndi fram á mikil tengsl Sturlu við Grettis sögu og var í rauninni í engum vafa um að hann væri höfundur hennar,“ segir Einar.

„Ný­lega kom svo fram stór­merki­legt fræði­rit, eftir fræði­konuna Elín­báru Magnús­dóttur, þar sem hún færir fyrir því sterk rök að hann hafi einnig samið Eyr­byggja sögu. En hún gerist ein­mitt þar sem hann bjó.“

Við Ís­lendingar stöndum náttúr­lega öll í þakkar­skuld við Sturlu en það væru svo miklar eyður í okkar sögu ef verka hans hefði ekki notið við.

Sturlu­setur lang­tíma­mark­miðið

Há­tíðin hefur ekki verið haldin síðustu ár en Einar segir að bæði hafi far­aldur kóróna­veirunnar og svo ó­vænt frá­fall Svavars valdið því að á­kveðin deyfð hafi fallið á Sturlu­fé­lagið.

„Ég held að það séu komin fjögur ár frá því þetta var haldið fyrst. En nú er löngu orðið tíma­bært að lyfta Sturlu upp eins og við höfum gert við suma aðra helstu lista­menn okkar í gegnum tíðina.“

Draumur Svavars var að stofnað yrði setur til heiðurs Sturlu á Staðar­hóli í líkingu við það sem gert hefur verið fyrir höfunda eins og Hall­dór Lax­ness, Þór­berg Þórðar­son og Snorra Sturlu­son. Einar segir að það sé enn lang­tíma­mark­miðið en til þess þurfi vissu­lega mikið fjár­magn og því þurfi að byrja á því að vekja at­hygli á þessum merka höfundi.