Þjóð­leik­húsið lagðist í mikla leit að Rómeó fyrir upp­setningu sína á Rómeó og Júlíu eftir Willi­am Shakespeare í leik­stjórn Þor­leifs Arnar Arnars­sonar. Frum­sýning verður í mars á næsta ári. Á­kveðið var að halda prufur fyrir leikara á aldrinum 20–30 ára til að finna hinn eina rétta í hlut­verk Rómeós. Áður hefur verið til­kynnt að Ebba Katrín Finns­dóttir muni fara með hlut­verk Júlíu.

Fjór­tán leikurum var boðið í ítar­legar prufur fyrir hlut­verkið en alls höfðu um 100 sótt um. Nú er Rómeó fundinn en hann er Sigur­bjartur Sturla Atla­son, eða Sturla Atlas eins og hann er betur þekktur. Hann hefur verið á­berandi á undan­förnum árum sem leikari en ekki síður sem einn vin­sælasti tón­listar­maður landsins meðal ungs fólks. Hann var út­nefndur bjartasta vonin á Ís­lensku tón­listar­verð­laununum árið 2016 og hefur ný­verið sent frá sér plötuna Para­noia. Hann lék í Ó­færð 2 og kvik­myndinni Lof mér að falla.

Mætti vel undir­búinn

„Þegar maður fær stórar fréttir er maður alltaf smá­tíma að melta þær,“ sagði Sturla Atlas þegar blaða­maður náði tali af honum. „Þetta hafa verið krefjandi tvær vikur frá því fyrsta prufan var haldin. Þegar það ferli hófst ein­setti ég mér að vera í sem bestu and­legu á­sig­komu­lagi og mæta vel undir­búinn til leiks.“

Það er skemmti­leg til­viljun að Sturla Atlas leik­stýrði Rómeó og Júlíu fyrir Herra­nótt MR, í febrúar á þessu ári. Spurður hvernig per­sóna Rómeó sé segir hann: „Fyrir mér er Rómeó ungur maður sem er gífur­lega hvat­vís og ekki í full­komnu and­legu jafn­vægi en um leið orku­mikill og hrífur fólk með sér. Hjá honum er allt upp á líf og dauða. Hann er stór og mikill karakter, sem er virki­lega á­nægju­legt að fá að glíma við.“

Dá­lítið flón

Spurður hvort hvat­vísi og ó­stöðug­leiki Rómeós stafi að ein­hverju leyti af ungum aldri hans segir Sturla Atlas: „Ungur aldur spilar þarna stórt hlut­verk. Ungir karl­menn ganga margir með stóra og mikla drauma, hafa miklar langanir og til­finningar og vita ekki hvernig þeir eiga að kljást við þetta allt saman og finna jafn­vægi í til­verunni. Ef maður myndi lesa leik­ritið mjög kalt og ætla að flokka Rómeó sem erki­týpu, þá er hann í grunninn dá­lítið flón. Rómeó talar að vissum hluta inn í okkar menningu, þar sem ungir menn eru margir í and­legu ó­jafn­vægi og taka vondar á­kvarðanir.“

Sturla Atlas er lærður leikari og þetta verður ekki í fyrsta sinn sem hann stígur á svið í Þjóð­leik­húsinu. Hann lék í Brúð­kaupi Fígarós eftir Mozart sem Ís­lenska óperan setti upp í Þjóð­leik­húsinu á síðasta ári. Frá átta ára aldri til fimm­tán ára lék hann í barna­leik­sýningum í Þjóð­leik­húsinu.