Í lok nóvember 2021 fór Ólöf í reglubundna skimun fyrir brjóstakrabbameini, en hún er 48 ára og hefur farið á tveggja ára fresti frá því að hún varð fertug. Þá kom í ljós eitthvað sem var ákveðið að skoða betur og þann 6. desember sagði læknir henni að hún væri með krabbamein í hægra brjósti.

Andlegt og líkamlegt áfall

„Þannig labbaði maður á vegg og til að byrja með fylgdi þessu mikið áfall og óvissa,“ segir hún. „En það var strax tekið utan um mann, allt gerðist mjög hratt og ég byrjaði í rannsóknum daginn eftir. Þann 22. desember byrjaði ég í lyfjagjöf og fór svo átta sinnum á tveggja vikna fresti. Það var rosalega erfitt, enda var bara verið að dæla í mann eitri. Því fylgdi að missa hárið og alla orkuna og mikil þreyta og þoka í huganum.“

Ólöf er grafískur hönnuður sem rekur eigið hönnunar- og ljósmyndastúdíó undir nafninu Svart, en heimasíðuna er að finna undir vefslóðinni svart.design.

„Ég hef verið frá vinnu núna í bráðum átta mánuði. Fyrst hélt ég að ég gæti kannski unnið aðra hvora viku, en ég þurfti bara að sætta mig við að þetta væri eina verkefnið sem ég gæti sinnt,“ segir hún. „Það var rosa erfitt að fara frá því að vera vön að hafa alla orku heimsins í að vera allt í einu með pínulítil batterí. Stundum hefur mér líka liðið rosalega vel og þá hef ég farið fram úr mér og „crashað“, sem er rosa erfitt andlega. En ég er að fara hægt og rólega aftur í gang núna.

Eftir lyfjagjöfina fór ég í brjóstnám og í dag eru fjórar vikur síðan ég kláraði geislameðferð og það gengur allt rosalega vel. Læknarnir telja sig hafa náð öllu krabbameininu og allri virkri meðferð er lokið,“ segir Ólöf.

Afar þakklát Ljósinu

„Þegar ég greindist hafði ég samband við Ljósið og fékk strax viðtal. Stundum trúi ég ekki hvað þetta er yndislegur staður. Það er svo mikið af fólki sem tekur á móti manni og hugsar um mann. Ég var send í þrekpróf til að taka stöðuna á líkamanum og sagt að það væri best að byrja strax í endurhæfingu, svo ég hef verið í henni síðan í janúar,“ segir Ólöf. „Í júní fór ég svo aftur í þrekpróf og þá kom í ljós að líkaminn var í betri stöðu en í janúar, sem ég þakka Ljósinu. Frábæra fólkið þar hefur gengið með mér í gegnum þetta og hvatt mig áfram og ég er rosalega þakklát.

Þess vegna ákvað ég að næsta markmið væri að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu til styrkar Ljósinu, en ég hef oft tekið þátt áður. Ég ákvað samt að „hlabba“ í ár, sem sagt hlaupa og labba í bland og taka mér bara tíma í þetta,“ útskýrir Ólöf. „Nánustu vinkonur mínar, börnin mín og mamma mín ætla líka að fara með mér og þau hafa hvatt mig áfram.“

Ólöf er spennt fyrir maraþoninu í ár. „Ég ætla líka að halda áfram að taka þátt. Í ár vil ég bara klára en á næsta ári ætla ég að hlaupa allan tímann og ná betri tíma,“ segir hún.

Vinkonurnar voru klettar

„Vinkonur mínar hafa verið mínir klettar í þessu ferli og það er ómetanlegt að hafa svona mikinn stuðning og geta rætt við einhvern um þessa lífsreynslu,“ segir Ólöf. „Þetta er líka búið að vera mjög lærdómsríkt ferli fyrir okkur allar og núna þegar ég er komin yfir þetta get ég sagt að þó að þetta hafi auðvitað verið rosalega erfitt og mikið áfall er þetta líka búið að vera að mörgu leyti jákvæð reynsla. Ég hef lært mikið og er ný manneskja eftir þetta. Ég er líka mjög þakklát líkamanum mínum fyrir að hafa verið svona sterkur og þess vegna ætla ég að fara vel með hann það sem eftir er.

Á næstunni heldur svo endurhæfingin bara áfram, ég ætla að hlaða batteríin og stækka þau og byrja að vinna aðeins aftur,“ segir Ólöf.

Konur eiga að drífa sig í skimun

„Að lokum langar mig að hvetja allar konur sem fá boð um skimun til að fara, en í fyrra komu bara 50% boðaðra kvenna, sem mér finnst mjög lítið. Það liðu bara tvö ár milli skimana hjá mér, svo þetta getur gerst hratt,“ segir Ólöf. „Við erum heppnar að þetta sé í boði á Íslandi og konur eiga ekki að vera hræddar við að drífa sig.“


Hægt er að finna Ólöfu og heita á hana á heimasíðunni hlaupastyrkur.is.