Myndlistarsýningin Stundum (yfir mig fjallið) eftir bandaríska listamanninn John Zurier var opnuð í dag í BERG Contemporary galleríinu að Klapparstíg í Reykjavík.

Margt fólk mætti til að berja nýjustu verk Zurier augum, en hann hefur tekið þátt í fjölda tvíæringa um allan heim og eru verk hans að finna í mörgum opinberum safneignum á borð við nútímalistasafnið í San Francisco, nútímalistasafninu í Stokkhólmi, Berkley háskóla og listasafninu í Berkley. Þá hefur hann einnig haldið fjölmargar einkasýningar í Bandaríkjunum, Evrópu og Japan.

Zurier fæddist í Santa Monica í Kaliforníu og kom til Íslands fyrst árið 2002. Hann býr nú og starfar hvort tveggja í Berkley í Kaliforníu og í Reykjavík. Hefur Zurier frá árinu 2011 deilt tíma sínum milli íslenska landslagsins og heimaslóða sinna í Kaliforníu, og má greina áhrif hvoru tveggja í verkunum. 

Listamaðurinn var táningur í Kaliforníu þegar hópur listamanna ruddu sér til rúms og kenndu sig við „birtu og rými“. Notaði þessi hópur óhefðbundnar aðferðir til að túlka reynslu og skynjun, og vildu að áhorfandinn gæti ekki aðeins séð birtu, rými og rúmmál hluta, heldur fyndi einnig fyrir þeim líkamlega. Vildu þeir þannig virkja allan líkamann í upplifuninni af listaverki. 

Tíðarandinn í Suður-Kaliforníu varð til þess að þeir notuðu alls konar hátækniefni sem þróuð höfðu verið fyrir flug- og geimferðir til að ná fram þeim áhrifum sem þeir vildu. Zurier notar hins vegar algerlega hefðbundið efni til að komast að sama marki. 

Meðhöndlar Zurier strigann af mikilli nákvæmni með lími, farva og olíulitum. Stundum merkir hann brot, hnökra og aðrar misfellur í striganum með litadoppum eða línum, eins og til að draga fram líf strigans sjálfs áður en hann var tekinn undir málverkið. Þessi virðing við yfirborðið verður stundum stundum ráðandi í byggingu málverksins, t.d. í myndinni Eftir Hallgrími Péturssyni.

Galleríið er staðsett að Klapparstíg 16 í miðbæ Reykjavíkur, og sendur sýningin yfir til 22. desember.