„Hugmyndin er að við séum að gefa fólki smá sýnishorn af bókinni,“ segir Chanel Björk Sturludóttir, einn þriggja ritstjóra nýrrar bókar Hennar raddar og Viu útgáfu um konur af erlendum uppruna.
Í dag er frumsýnt á vef Fréttablaðsins kynningarmyndband um bókina þar sem spjallað er við nokkrar þeirra kvenna sem þar segja sögu sína. Horfa má á myndbandið neðst í fréttinni. Chanel Björk Sturludóttir, Elínborg Kolbeinsdóttir og Elínóra Guðmundsdóttir ritstýra bókinni og er rætt við þær í blaði dagsins.
Hugmyndina að bókinni fengu þær Chanel og Elínborg þegar þær stofnuðu Hennar rödd árið 2019. Þríeykið hyggst gefa bókina út upp á eigin spýtur í nóvember og safnar nú fyrir útgáfunni á Karolina Fund. „Við vildum að ávinningur verkefnisins myndi skila sér aftur út í samfélag kvenna af erlendum uppruna á Íslandi,“ útskýrir Chanel. Ágóðinn mun því renna til fleiri verkefna á vegum Hennar raddar og Viu.
„Í Kenýa þurfti ég aldrei að hugsa um kynþátt. Þannig að ég varð svört hér. Af því að því auðkenni er skellt á þig, á hverjum einasta degi,“ segir ein konan en í myndbandinu birtast áhrifaríkar tilvitnanir úr bókinni.
„Helsti misskilningurinn um innlytjendur er að við séum ekki vel menntuð, eða að við séum að flýja fátækt. Við getum ekki sett alla útlendinga í eitt box,“ segir önnur.
„Við erum alltaf að horfa á innflytjendur sem koma hingað eins og þeir hafi ekki átt neitt líf. Eins og þau hafi öll fæðst úti á Keflavíkurflugvelli. Ég var alveg einhver.“