Á morgun verður sýningin Óhlutbundinn veruleiki opnuð, en sýningarstýrur hennar eru þær Dóra Júlía Agnarsdóttir og Laura Clark. Þær eru báðar nemar í listfræði í Háskóla Íslands. Hluti af áfanga sem kallast Listgagnrýni og sýningastjórn felst í því að setja upp sjálfstæða sýningu.

„Ég og bekkjarsystir mín Laura vorum svo heppnar að fá að vinna með Listasafni Háskóla Íslands, sem er alveg ótrúlega flott og skemmtilegt listasafn. Það er list víða í Háskólanum, sem er svona gegnumgangandi um allar byggingar.

Okkur fannst smá eins og nemendur væru ekki beint að njóta þeirra. Það voru margir sem ég talaði við sem höfðu séð þau, en ekki beint horft á þau eða tekið almennilega eftir þeim, af því við erum á svo stanslausum þeytingi. Við eigum það til að gleyma að líta bara upp, vera í núinu,“ segir Dóra Júlía.

List fyrir vegfarendur

Dóru og Lauru fannst alveg sérstaklega skemmtileg hugmynd að setja upp sýningu á háskólasvæðinu.

„Við fengum úr geymslu Listasafns Háskóla Íslands ellefu abstrakt verk eftir listamanninn Valtý Pétursson, sem var mikil brautryðjandi í íslensku listasenunni. Hann var forsprakki í abstrakt-list á Íslandi og mjög óhlutbundinn listamaður. Okkur langaði að fleiri fengju að upplifa verk hans, fá nýjar kynslóðir til að njóta arfleifðarinnar sem margir íslenskir listamenn hafa skilið eftir sig.

Við fengum að vinna þetta í samstarfi við Hið íslenska bókmenntafélag. Sýningin er í byggingu Hótel Sögu, á jarðhæðinni. Við fengum svo flottan sal þar sem gluggar ná til gólfs, þannig að gangandi vegfarendur geta notið listarinnar.“

Hún segir þær hafa valið nafnið Óhlutbundinn veruleiki í ljósi þess að lífið sé oft svo óútreiknanlegt og í raun abstrakt, óhlutbundið.

„Síðasta ár hefur bara minnt okkur á það. Það er ekki alltaf hægt að kryfja allt eða fylgja sama strúktúrnum og formunum. Stundum þarf bara að brjóta hlutina upp til að ná að njóta þeirra. Myndirnar eru mjög litaglaðar og skemmtilegar, okkur fannst það líka haldast í hendur við hækkandi sól og vonina sem vorið felur alltaf í sér.

Okkur langaði að minna fólk á að við þurfum ekki alltaf að skilja, leyfum okkur stundum að njóta, en ekki endilega vera alltaf að horfa stanslaust hingað og þangað. Draga andann djúpt og virða fyrir sér listina sem umkringir okkur,“ segir hún.

Fréttablaðið/Anton Brink

Listin allt í kring

Fólk þarf oftast ekki að leita langt þegar kemur að fegurðinni og listinni í kringum okkur, að sögn Dóru Júlíu.

„Til dæmis ef þú ert í Háskólanum og ert að læra á fullu fyrir próf, stundum virðist það sem þú stendur frammi fyrir vera stærra en heimurinn. En svo getur þú kannski litið upp og áttar þig á að það eru ótrúlega skemmtileg listaverk fyrir framan þig. Það er svo mikilvægt að leyfa ekki erfiðleikunum alltaf að taka yfir, það eru alls konar víddir og ólík sjónarhorn sem við getum minnt okkur á,“ útskýrir Dóra Júlía.

Hún segir samstarf þeirra Lauru hafi orðið til á mjög náttúrulegan máta, það hafi fljótt komið í ljós að þær ynnu vel saman.

„Hún er alveg frábær og við erum orðnar mjög góðar vinkonur. Það var ætlast til þess að við tækjum verkefnið tvö eða fleiri saman. Við fórum í skoðunarferðir á mismunandi söfn og okkur leist báðum mjög vel á Listasafn Háskóla Íslands. Þannig að við byrjuðum að tala saman og þannig fór þetta bara að flæða,“ segir hún.

Lærdómsríkt ferli

Ferlið hefur verið mjög lærdómsríkt fyrir þær báðar.

„Það er ótrúlega margt sem þarf að huga að, þetta er náttúrulega bara fyrsta listsýningin sem við setjum upp. En Hlynur Helgason, kennarinn okkar, hefur veitt okkur ómetanlegan stuðning og hjálp. Kristján Steingrímur Jónsson hjá Listasafni Háskóla Íslands hefur kennt okkur mjög mikið. Ólöf Dagný Óskardóttir hefur verið dásamleg við okkur, þannig að það hafa allir einhvern veginn reynst okkur rosalega vel. Þetta hefur verið ótrúlega lærdómsríkt og skemmtilegt ferli,“ segir Dóra Júlía.

Sýningin Óhlutbundinn veruleiki verður opnuð í húsnæði Hins íslenska bókmenntafélags á morgun klukkan 14.00. Hún verður opin í allt sumar og því vona þær Dóra og Laura að sem flestir nái að njóta, þar á meðal gangandi vegfarendur.