Kristín Svava Tómasdóttir hlaut í dag viðurkenningu Hagþenkis – félags höfunda fræðirita og kennslugagna fyrir rit sitt Stund klámsins. Klám á Íslandi á tímum kynlífsbyltingarinnar, sem  Sögufélagið gaf út.

Í ályktunarorðum Viðurkenningaráðsins segir meðal annars að um brautryðjendaverk um sögu kláms og kynverundar á Íslandi sé að ræða og að höfundurinn byggi á „afhjúpandi rannsóknum á vandmeðförnu efni.“

Auður Styrkársdóttir, stjórnmálafræðingur og „pensjónisti“, eins og hún orðaði kynnti starfsemi Hagþenkis við afhendinguna í Þjóðarbókhlöðunni en þetta er í 32. sinn sem viðurkenningin er veitt.

Tíu bækur voru tilnefndar og Auður sagði valið á milli þeirra hafa, eins og venjulega, verið erfitt en „að endingu varð þó ráðið einhuga um að veita því riti viðurkenningu sem þótti frumlegast, einkum þó er kemur að djörfung í efnisvali og brautryðjendastarfi í rannsóknum,“ sagði hún um Stund klámsins.

Sjá einnig: Hagþenkir tilnefnir klám, Krist og allt þar á milli

Bókin er að stofni til meistaraverkefni Kristínar í sagnfræði við Háskóla Íslands, „en hún hefur lagt mikla vinnu í verkið síðan gráðan var í höfn; bókin sem við höfum nú í höndunum er afrakstur áralangra rannsókna á þessu áður ókannaða sviði Íslandssögunnar.“

Hvað er klám?

Auður fór vel og vandlega yfir  eðli og innihald bókarinnar og varpaði fram þeirri spurningu hvernig umfjöllun um klám gæti ratað í fræðilega útgáfu. „Og á hvaða forsendum fær slíkt rit viðurkenningu á borð við þessa? Er klám ekki bara klám? Á það ekki best heima í afkimum netsins og ódýrum tímaritum?“

Hún svaraði spurningum sínum síðan að bragði: „Nei, það kemur nefnilega í ljós að klám er ekki bara klám. Eitt af meginviðfangsefnum bókar Kristínar er sjálf skilgreiningin á hugtakinu og hún er alls ekki einföld. Á íslensku hefur skapast sú hefð að nota orðið klám í víðum skilningi, bæði um kynferðislegt efni og um það sem er talið ósæmilegt og brjóta gegn almennu velsæmi. Á sumum tungumálum er hins vegar greint þarna á milli, til dæmis er talað um pornography og obscenity á enskri tungu. Á íslensku eru grafísk kynlífsmyndbönd því klám, en líka hvaðeina sem gæti ofboðið fólki.“

Fræðilegt stáss sem á erindi

„Sagan sem borin er á borð í Stund klámsins á erindi við alla sem velta fyrir sér hinni samfélagslegu sýn á kynverund Íslendinga. Útgáfan er vegleg og glæsilega gerð af hendi Sögufélags og bókin er auk þess ríkulega skreytt myndum sem undirstrika og auka innihald hennar. Eðli málsins samkvæmt eru margar myndirnar bersýnar og Stund klámsins hentar því kannski ekki sem stofustáss á öllum heimilum, en hún er svo sannarlega fræðilegt stáss sem bæði höfundur og útgefendur geta og mega vera stolt af,“ sagði Auður jafnframt.

Auk Stundar klámsins voru þessi verk tilnefnd:

Alda Björk Valdimarsdóttir:  Jane Austen og ferð lesandans. Skáldkonan í þremur kvennagreinum samtímans.

Axel Kristinsson: Hnignun, hvaða hnignun? Goðsögnin um niðurlægingartímabilið í sögu Íslands.

Árni Daníel Júlíusson: Af hverju strái. Saga af byggð, grasi og bændum 1300–1700.

Bára Baldursdóttir og Þorgerður H. Þorvaldsdóttir: Krullað og klippt. Aldarsaga háriðna á Íslandi.

Hörður Kristinsson, Jón Baldur Hlíðberg og Þóra Ellen Þórhallsdóttir: Flóra Íslands. Blómplöntur og byrkningar.

Magnús Þorkell Bernharðsson: Mið-Austurlönd. Fortíð, nútíð og framtíð.

Ólafur Kvaran: Einar Jónsson myndhöggvari. Verk, táknheimur og menningarsögulegt samhengi.

Rósa Rut Þórisdóttir: Hvítabirnir á Íslandi.

Sverrir Jakobsson: Kristur. Saga hugmyndar.