Tónlistarmaðurinn og leikarinn Pétur Óskar Sigurðsson, einnig þekktur sem Oscar Leone, gefur út lagið Lion í dag. Tónlistarmynband við lagið er væntanlegt í næstu viku.

„Það fjallar um von, og svo um stúlku sem ég var að deita fyrir mörgum árum,“ segir Pétur um innihald lagsins og útskýrir að heiti þess, Lion, sé tvöföld tilvísun. „Ljónið er stjörnumerkið mitt en þetta vísar líka til Leone-hlutans í listamannsnafninu mínu.“

Tónlistarmyndband lagsins var tekið upp á Djúpavík „Við vorum að leita að skemmu til að nýta við tökur og fengum ábendingu á Facebook,“ segir Pétur. „Okkur langaði að skjóta í svona rustic vintage-fíling, eitthvað hrátt. Svo var þetta líka fín afsökun til að fara út á land og hafa gaman. Við vorum allir sammála um að við lifum fyrir svona daga – að vera bara að skjóta, segja sögur, hlæja og skapa.“

Tökuliðið var ekki af verri endanum, en Pétur fékk leikstjórann Anton Inga Sigurðsson með í för en hann leikstýrði meðal annars kvikmyndinni Grimmd. Þá var Gunnar Auðunn Jóhannsson myndatökumaður.

Tökurnar á myndbandinu segir Pétur hafa gengið eins og í sögu og að fegurð Djúpavíkur hafi spilað þar lykilhlutverk. „Ég vissi eiginlega sjálfur ekki af þessum stað. Það er alveg rosalega fallegt þarna, og leiðin í gegnum firðina er alveg æðisleg líka.

Lion vísar í senn til nafnsins Leone og stjörnumerkis Péturs.

Fegurð Djúpavíkur hefur dregið fleiri tökulið að, en ofurhetjumyndin Justice League var tekin þar upp þar sem Jason Momoa í hlutverki Aquaman baðaði sig eftirminnilega upp úr ísköldum sjónum.

Pétur hvetur fólk eindregið til að kíkja til Djúpavíkur í sumar en það virðist sem ferðaglaðir Íslendingar séu skrefinu á undan honum. „Við vorum að borða eftir tökur á hótelinu og það var fullt út að dyrum.“

Þegar Pétur gaf út lagið Superstar í fyrra var frumflutningur á laginu á skemmtistaðnum Miami og segir Óskar líklegt að eitthvað álíka verði gert fyrir Lion. „Ég er ekki alveg búinn að ákveða það en þetta yrði kannski svolítið spontant og yrði þá tilkynnt í lok vikunnar.“

Það er annars nóg á döfinni hjá Pétri, bæði í leiklist og lagasmíðum. „Ég lék lítið hlutverk í Verbúð hjá Vesturporti og verð svo áfram í Tjarnarbíói í haust í verkinu Polishing Iceland sem var sett á ís vegna COVID. Annars er planið svo bara að halda áfram að semja og reyna að taka einhver gigg í kjölfar Lion.“