Stuðnings­fólk Manchester United er með böggum hildar eftir tap gegn Liver­pool. Frétta­blaðið heyrði í þeim sem sleikja sárin.

Hvernig líður þér?

Vonarglætan hvarf

Fréttablaðið/Stefán

Tómas Gauti Jóhanns­son leikari:

„Það var hægt að gantast eftir fyrstu tvö mörkin. En þegar staðan var orðinn 4-0 þá fór þetta eigin­lega bara að verða of vand­ræða­legt fyrir mitt lið og glensið breyttist í vor­kunn. Sem segir ýmis­legt um mitt lið,“ segir Tómas Gauti en til þess að gera stöðu hans enn á­takan­legri horfði hann á leikinn með unnustu sinni, Sjöfn Ragnars­dóttur lækni, sem er eld­heitur Púllari.

„Hún fagnaði með glasi af rósa­víni í hálf­leik. Ég hafði engar væntingar fyrir þennan leik en fann samt fyrir al­gjöru von­leysi. Manni líður kannski bara svo­lítið kjána­lega, að það hafi eftir allt saman síðustu vikur verið innst inni ein­hver von fyrir leik. Sú vonar­glæta hvarf ör­fáum mínútum eftir að leikurinn byrjaði. “

Full­komin niður­læging

Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Sigurður Mikael Jóns­son upp­lýsinga­full­trúi UNICEF:

„Þetta var full­komin niður­læging og það er skelfi­leg til­finning að þurfa að setjast á rauð­þrútið Liver­pool­merkið sem flengt var á bossa okkur stuðnings­manna United um helgina.“

Sorgar­dagur

Fréttablaðið/Ernir

Bjark­ey Ol­sen Gunnars­dóttir þing­kona VG:

„Þetta er mjög sorg­legur dagur maður. Enn­þá. Svo er ég gift Púllara sko, þannig að þetta var enn­þá sárara, það er bara þannig,“ segir Bjark­ey sem er í á­líka við­kvæmu sam­bandi og Tómas Gauti. Auk þess sem for­maður hennar Katrín Jakobs­dóttir, fylgir Liver­pool einnig af ein­urð og festu. „Jájá, svo er það svo­leiðis líka. Ég er ekki í mjög góðum fé­lags­skap oftast sko,“ segir hún og hlær.

„Maður er bara dá­lítið sorg­mæddur og auð­vitað veltir maður fyrir sér stöðu Ole Gunnar Sol­skjær. Það hlýtur að vera komið að ein­hverri ögur­stundu í þessu þótt ég hafi alltaf verið hans kona. En eins og ég segi, þetta var ekki mjög gleði­legur dagur á heimilinu mínu nema öðrum megin sko. Ég neita því ekki að hann gladdist mjög, bóndinn.“