Safnanótt fer fram í kvöld, föstudaginn 3. febrúar, á vegum Vetrarhátíðar. Þá munu fjölmörg söfn á höfuðborgarsvæðinu opna dyr sínar og bjóða upp á skemmtilega og fjölbreytta dagskrá á milli klukkan 18.00 og 23.00. Íbúar og gestir á öllum aldri geta notið dagskrár Safnanætur sér að kostnaðarlausu og fengið nýja sýn á helstu söfn höfuðborgarsvæðisins. Fréttablaðið fer yfir það sem ber helst á góma á Safnanótt 2023.

Listasafn Íslands og Safnahúsið
Tvær sýningar verða opnaðar í Listasafni Íslands og Safnahúsinu á Safnanótt. Sýningin Gallerí Gangur í 40 ár er yfirlitssýning um listamannarekna sýningarrýmið Gallerí Gang sem stofnað var af myndlistarmanninum Helga Þorgils Friðjónssyni árið 1979 og hefur alla tíð verið rekið á heimili hans.
Árið 2020 var haldið upp á 40 ára afmæli Gangsins með sýningu á verkum þeirra erlendu listamanna sem hafa átt verk á sýningum Gangsins í gegnum tíðina. Að afmælisárinu loknu gáfu hjónin Helgi Þorgils Friðjónsson og Rakel Halldórsdóttir verkin sem voru á sýningunni til Listasafns Íslands, samtals 117 listaverk eftir 84 listamenn frá 22 löndum sem Listasafn Íslands efnir nú til sýningar á. Sýningin verður opnuð í Listasafni Íslands á Fríkirkjuvegi klukkan 19.00.
Sýningin Viðnám, samspil myndlistar og vísinda, er þverfagleg sýning fyrir börn á öllum aldri, sem brúar bilið milli myndlistar og vísinda. Listaverkin á sýningunni tengjast öll orðræðunni um sjálfbærni og þeim siðferðilegu málefnum er tengjast þeirri vinnu sem stuðlar að þróun í átt að frekari sjálfbærni. Verkin gefa fólki tækifæri til að velta vöngum yfir tilverunni, náttúrunni og öðru fólki. Sýningin verður opnuð í Safnahúsinu við Hverfisgötu klukkan 17.00.

Listasafn Reykjavíkur
Sýningin Andardráttur á glugga með verkum eftir Siggu Björgu og Ásmund Sveinsson verður opnuð í Ásmundarsafni á Safnanótt klukkan 17.00.
Listasafn Reykjavíkur heldur áfram að kynna ný verk starfandi listamanna í Ásmundarsafni, þar sem þau kallast á við myndheim Ásmundar Sveinssonar. Í þetta sinn er áherslan á þjóðsögur, ævintýri og ímyndunarafl.
Í nýlegri yfirlitsgrein sagði tísku- og lífsstílstímaritið Vogue Scandinavia sýninguna Andardrátt á glugga vera eina áhugaverðustu myndlistarsýningu á Norðurlöndum árið 2023.
Sigga Björg er kunn af hugmyndaríkum teikningum sínum, innsetningum, myndböndum og bókverkum. Hún hefur skapað einstakan myndheim þar sem fantasía, húmor og hryllingur fara saman hönd í hönd. Í verkum sínum þræðir hún tilfinningalífið í allri sinni óreiðu og skapar stemningar sem nær ómögulegt er að færa í orð en með einkennandi stílbrögðum sínum nær hún að tjá ótrúlegustu blæbrigði.
Auk opnunar sýningarinnar Andardráttar á glugga verða fjölmargir aðrir viðburðir á dagskrá Listasafns Reykjavíkur á Safnanótt í Hafnarhúsi, Kjarvalsstöðum og Ásmundarsafni.

Sjóminjasafnið
Margmiðlunarsýningin Við erum jörðin – við erum vatnið eftir Heimi Frey Hlöðversson verður opnuð í Sjóminjasafninu í Reykjavík á Safnanótt klukkan 20.00.
Í sýningartexta Birtu Guðjónsdóttur segir meðal annars: „Í verkinu Við erum jörðin – við erum vatnið fáum við óvenjulega innsýn í ægifögur form náttúrunnar. Ljóðræna sýn á hið agnarsmáa í hinu risastóra, sem tækninýjungar veita okkur. Um leið er verkið dreyminn sjónrænn leikur við síbreytanleg form sem skapast stöðugt í kringum okkur en við komum alla jafna ekki auga á. Okkur er boðið í ferðalag nánast inn í efnin sjálf, sameiningu og umbreytingarferli þeirra.“
Heimir Freyr er kvikmyndagerðarmaður, listamaður og margmiðlunarhönnuður á Íslandi. Hann gerir kvikmyndir, listainnsetningar og sýndarveruleika-upplifanir.

Listasafn Sigurjóns Ólafssonar
Tvær nýjar sýningar verða opnaðar í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar á Laugarnestanga á Safnanótt klukkan 18.00.
Á efri hæð safnsins verða til sýnis andlitsmyndir Sigurjóns af fjölskyldu Einars Sigurðssonar, útgerðarmanns í Vestmannaeyjum, og Svövu Ágústsdóttur undir heitinu Barnalán. Á árunum eftir 1963 fékk Einar Sigurjón til að gera nær tvo tugi andlitsmynda, portretta, lágmynda eða heilmynda af sér og fjölskyldu sinni.
Í aðalsal safnsins eru sýnd lykilverk Sigurjóns frá 1938 til 1982 undir yfirskriftinni Úr ýmsum áttum. Heiti sýningarinnar skírskotar bæði til fjölbreytni verkanna og eignarhalds þeirra. Þar má sjá verk úr ólíkum efnum, svo sem gifsi, bronsi, marmara, brenndum leir og tré. Hluti verkanna er úr stofngjöf Birgittu Spur til Listasafns Sigurjóns Ólafssonar, sjálfseignarstofnunar sem fyrir áratug var afhent Listasafni Íslands, en önnur eru úr einkasafni erfingja Sigurjóns.

Listasafn Einars Jónssonar
Í Listasafni Einars Jónssonar á Skólavörðuholti verður dagskrá tengd sýningunni Allt um kring eftir myndlistarmanninn Jónínu Mjöll Þormóðsdóttur sem var opnuð fimmtudaginn 2. febrúar.
Jónína Mjöll mun bjóða upp á þrjár leiðsagnir um sýninguna á Safnanótt ásamt hörpuleikaranum Sólveigu Thoroddsen klukkan 18.30, 20.30 og 21.30.
Á sýningunni Allt um kring teflir Jónína Mjöll fram tilraunakenndum skúlptúrum úr fisléttum hvítum fjöðrum. Verk hennar eru kvenlæg í mýkt sinni og kallast á við massíf verk Einars. Hún sækir innblástur í andlegar víddir og vinnur markvisst með hvíta litinn sem sameiginlegan þráð sýningarinnar.
Jónína Mjöll lauk námi í myndlist árið 2015 við Hochschule für Künste í Bremen og meistaranámi í myndlist árið 2017. Hún hefur haldið fjölda einka- og samsýninga, meðal annars í Bremen, Köln og Hamborg, en einnig í Japan, Víetnam og á Íslandi.

Hönnunarsafn Íslands
Ný fastasýning verður opnuð í Hönnunarsafni Íslands á Safnanótt klukkan 20.00 og mun standa í þrjú ár. Á sýningunni Hönnunarsafnið sem heimili má finna um 200 dæmi um íslenska hönnun en safneign Hönnunarsafns Íslands telur í heild um 5.000 muni frá árinu 1900 til dagsins í dag.
Sýningin er sett upp sem grunnmynd af heimili en líkt og á heimilum fólks má sjá þar hlið við hlið muni frá mismunandi tímabilum. Húsgögn, borðbúnaður, fatnaður, bækur og textíll frá ólíkum tíma koma saman og varpa ljósi á brot af því sem íslenskir hönnuðir og handverksfólk hefur skapað.
Heimilið er í sífelldri þróun. Stöðugt er verið að færa til, skipta út og breyta. Sköpun heimilis er lifandi ferli án endapunkts, en heimilið er fyrst og síðast sköpun þeirra sem þar búa. Smekkur, sem getur mótast af ýmiss konar áhrifaþáttum í lífi hvers og eins, er það sem gefur hverju og einu heimili sín sérkenni.

Borgarbókasafn
Fjölbreytt dagskrá verður hjá Borgarbókasafninu í Grófinni á Safnanótt.
Ljóðaslamm Borgarbókasafns fer fram klukkan 20.00 þar sem hæfileikafólk á sviði ljóð- og sviðslistar flytja frumsamin verk. Ljóðaslamm hefur verið reglulegur og vinsæll viðburður á Borgarbókasafninu í gegnum tíðina. Þekkt skáld, tónlistarfólk og sviðslistafólk hafa stigið sín fyrstu skref í Slamminu, enda er ljóðaslamm, eða Poetry Slam, listform sem útfæra má á fjölbreyttan máta.
Ljóðaslamm felst í flutningi frumsamins ljóðs, þar sem áherslan er ekki síður á flutninginn en á ljóðið sjálft. Þannig telst hefðbundinn ljóðaupplestur ekki til ljóðaslamms, heldur er áherslan á ljóðaflutning sem sviðslist.
Nemendur framhaldsbrautar Klassíska listdansskólans sýna brot úr sviðsverkinu Flæði klukkan 21.00 sem þau hafa endurgert og aðlagað rými safnsins. Kvöldið endar svo á því að DJ Bjarni K. leikur fyrir dansi klukkan 22.00.