Sér­stakir gestir Menningar­nætur í ár eru sam­tökin S­upp­ort for Ukra­ine, Iceland, sem hafa skipu­lagt fjöl­breytta dag­skrá í Ráð­húsi Reykja­víkur í dag. Kristófer Gajowski, einn skipu­leggj­enda, hefur staðið í ströngu frá upp­hafi inn­rásar Rússa og að­stoðað fjölda Úkraínu­manna við að flýja stríðið í heima­landinu, á­samt Maríu Shram­ko.

Kristófer er lagna­tækni­fræðingur og jarð­fræðingur að mennt og hefur verið bú­settur á Ís­landi í tæpa þrjá ára­tugi. Hann er pólskur að upp­runa en faðir hans fæddist í Úkraínu og móðir hans er ítölsk. Þegar Rússar réðust inn í Úkraínu 24. febrúar byrjaði Kristófer strax að leita eftir því hvernig hann gæti hjálpað.

„Ég og fjöl­skyldan mín, eins og flestir, elskum að ferðast og við vorum búin að safna í tvö ár til að kaupa jeppa. Það er alltaf verð­bólga og alltaf eitt­hvað erfitt en við vorum komin með um 4,8 milljónir, það var ekki nóg til að kaupa nýjan bíl heldur ein­hvern gamlan,“ segir hann.

Í stað þess að kaupa jeppa á­kváðu Kristófer og fjöl­skylda að nota spari­féð til að styrkja úkraínska flótta­menn við að komast frá Pól­landi til Ís­lands. Kristófer komst í sam­band við ýmsa aðila úti í Pól­landi sem voru til­búnir að gefa honum góðan díl á gistingu fyrir úkraínska flótta­menn, auk þess sem hann að­stoðaði fólk við að komast í flug.

„Þetta er ekki eitt­hvað sem ég vil gera fyrir mig sem aug­lýsingu. Ég er búinn að vera í yfir 27 ár á Ís­landi og þetta er það sem ég er búinn að læra af ykkur, að standa saman og alltaf hjálpa hver öðrum. Það skiptir miklu máli,“ segir Kristófer.

Ég er búinn að vera í yfir 27 ár á Ís­landi og þetta er það sem ég er búinn að læra af ykkur, að standa saman og alltaf hjálpa hver öðrum.

Kristófer og María Shramko eru tveir skipuleggjenda samtakanna Support for Ukraine, Iceland.
Mynd/Aðsend

Hátt í tvö hundruð manns

Að sögn Kristófers hefur ýmis­legt komið upp á hjá flótta­mönnunum við ferða­lagið frá Úkraínu til Ís­lands. Til að mynda gerðist það nokkrum sinnum að starfs­menn flug­fé­lagsins Wizz Air vildu ekki hleypa fólki í flug vegna þess að það var ekki með rétt ferða­skil­ríki eða vega­bréf.

Hvað ertu búinn að hjálpa mörgum Úkraínu­mönnum að komast til Ís­lands?

„Það voru 58 ný­lega, en þeir sem ég er búinn að hjálpa per­sónu­lega eru alveg rúm­lega 160, sem ég er búinn að fjár­magna og svona. Við erum núna með um 1.500 Úkraínu­menn sem hafa komið hingað.“

S­upp­ort for Ukra­ine, Iceland, hafa staðið að ýmsum öðrum við­burðum hér á landi, á borð við mót­mæli fyrir utan rúss­neska sendi­ráðið og friðar­tón­leika í Hall­gríms­kirkju þar sem ýmsir þekktir lista­menn komu fram. Sam­tökin hafa nú skipu­lagt veg­lega há­tíðar­dag­skrá í Ráð­húsi Reykja­víkur í til­efni Menningar­nætur, þar sem úkraínskri og ís­lenskri menningu verður gert hátt undir höfði.

„Þetta var mjög gaman að heyra. Við erum að standa saman og Úkraína er ekki eitt­hvað úti í horni. Við viljum búa á landi eins og Ís­landi í friði. Það þarf ekki að hafa ó­vini eða of­beldi. Við erum land sem er með eitt­hvað um 380.000 íbúa og fólk frá yfir 200 löndum. Á þeim tíma sem ég hef búið á Ís­landi hef ég aldrei lent í neinu of­beldi eða ras­isma. Oft þegar ég heyri um slíkt þá finnst mér það bara hlægi­legt, því Ís­lendingar eru með rosa­lega gott hjarta,“ segir Kristófer.

Support for Ukraine, Iceland hafa meðal annars skipulagt mótmæli fyrir utan rússneska sendiráðið á Íslandi.
Mynd/Aðsend

Skemmti­at­riði og fræðsla

Dag­skráin í ráð­húsinu stendur frá 13 til 18 í dag og saman­stendur af skemmti­at­riðum frá ís­lenskum og úkraínskum lista­mönnum, auk þess sem boðið verður upp á veitingar og fræðslu. María Shram­ko úr Kokka­lands­liðinu mun bjóða gestum upp á margra metra langa úkraínska köku og þá verður sér­stakur bekkur þar sem gestir geta rætt við Úkraínu­menn í gegnum túlk og fengið að heyra sögu þeirra.

„Húsið verður opnað kl. 13 og byrjað með úkraínskri tón­list, eftir það koma Systur úr Euro­vision, Beta og Sigga. Eftir klukkan tvö þá verður há­tíð­leg opnun með stað­gengli borgar­stjóra, Einari Þor­steins­syni. Á þessum tíma erum við komin með rúm­lega 170 daga af stríði í Úkraínu. Í mínum huga vil ég ekki bara mjólka og biðja um hjálp frá Ís­lendingum heldur þarf líka að gefa til baka,“ segir Kristófer.

Hann bætir því við að á meðan okkur Ís­lendingum þyki sjálf­sagt að gera okkur glaðan dag og vera á­hyggju­laus á Menningar­nótt þá sé það sama ekki endi­lega uppi á teningnum hjá þeim Úkraínu­mönnum sem flúið hafa stríðið í heima­landinu.

„Fólkið sem undir­býr með mér þessa menningar­há­tíð fyrir Úkraínu á að baki rosa­lega stór sár, í huga og hjarta. Þetta er líka svo­lítið stressandi fyrir þau því þetta stríð skilur eftir sig mjög djúp sár í hjarta þeirra,“ segir Kristófer.