Kennarastarfið er gefandi en jafnfram krefjandi, segir á norska miðlinum forskning.no. Rannsókn var gerð við níu grunnskóla í miðvesturríkjum Bandaríkjanna um streitu hjá kennurum og hvaða áhrif hún hefur á bekkinn. Eitt hundrað kennarar svöruðu spurningum, meðal annars um hvort starfið væri streituvaldandi og hvort þeir upplifðu streitu. Næstum allir svarenda sögðust upplifa streitu í starfinu. Yfir 90 prósent upplifðu mjög mikið álag en flestir kennararnir töldu sig geta tekist á við það. Þó voru 28 prósent sem töldu sig vera í erfiðleikum með að vinna sig frá streitunni. Í þeim hópi sáu vísindamenn kulnun í starfi og minni væntingar til þess að ná árangri. Þá var hærra hlutfall þunglyndis hjá nemendum kennara í þessum hópi.

Árangur og streita

Greinilegt samhengi var á milli mikillar streitu hjá kennara og minni árangurs hjá nemendum þeirra. Rannsóknin var birt í Journal of School Psychology. Eftir nokkurn tíma á meðan rannsóknin stóð gátu vísindamenn tengt hegðunar- og einbeitingarvandamál meðal nemenda þeirra kennara sem töldu sig mjög stressaða í vinnunni. Hinn hópurinn þar sem kennarar gátu ráðið við streituna stóð sig betur í námi og hafði meiri félagslega færni.

Mikil vinna

Samkvæmt greininni á forskning er streita algengt vandamál meðal kennara í Noregi eins og í Bandaríkjunum. Gerð hefur verið rannsókn á því hvers vegna kennarar endast illa í starfi. Í Noregi var spurt um þreytu, áhyggjur og þunglyndi frekar en streituvandamál. Næstum allir norskir kennarar finna fyrir tímapressu en hún getur orsakað mikla þreytu. Þá eru agavandamál í skólastofunni og átök við foreldra einnig áhrifavaldar hjá kennurum. Talað er um að það vanti tilfinnanlega betri rannsóknir á áhrif kennara á nemendur.

Flestir kennarar vinna mikið. Þeir vilja vera vel undirbúnir fyrir tímana og utan skólastofunnar þarf að vinna pappírsvinnu.