Þetta er annað árið í röð sem jólakötturinn kemur í Rammagerðina. Stefnt er að því að á hverju ári fái nýr íslenskur hönnuður verkið og það verði eins konar safngripur í anda Georg Jensen-jólaóróanna, nema í öllu takmarkaðra upplagi, en Hanna kláraði þrítugasta og síðasta köttinn á þriðjudag.

„Jólakötturinn í fyrra var svo frábær því hann var búinn til úr endurunnum efnum og mig langaði að halda áfram að búa hann til úr einhverju sem væri skaðlaust,“ segir Hanna.

„Ég fékk verkefnið í sumar og síðan þá var ég búin að vera að horfa á norrænt jólaskraut. Við þekkjum öll IKEA-geitina, en það er til svo miklu meira sem er búið til úr stráum. Ekki bara á Norðurlöndunum heldur er líka hefð fyrir því um alla Evrópu að nota strá, þannig að mig langaði að prófa að takast á við þann efnivið,“ segir Hanna, sem hefur lagt töluverða vinnu í kettina.

Hafrar í sól eins og gull

„Ég var svo heppin að ég fékk bændur hérna á svæðinu til að vinna með mér. Ég fór að skoða mismunandi strátegundir, var að skoða bygg, hamp og melgresi, en endaði á því að fá hafra á bænum Akurnesi hérna í Nesjum í október. Gljáinn á hafrastráunum er sérstaklega fallegur og þegar sólin skín á hreinsað strá er það eins og gull.“Hanna notar 94 strá í hvern jólakött.

Út í óvissuna

„Þetta var mjög skemmtilegt en mjög taugatrekkjandi, því ég þurfti að bíða eftir að efniviðurinn yrði tilbúinn. Ég þurfti bara að bíða á meðan kornið þroskaðist, áður en það var hægt að gera tilraunir. Ég viðurkenni að ég vissi ekki alveg hvað ég var að fara út í,“ segir Hanna og hlær.

„Það fór talsverð vinna í að hreinsa stráin. Það þarf að taka utan af þeim og klippa hafrana af hverju einasta strái. Ég bleyti þau síðan og þá verða þau mjúk og hægt að móta þau.“

Hanna bætir við að það hafi tekið hana smá tíma að finna rétta formið á jólaköttinn, ekki síst með tilliti til þess að hann gæti örugglega staðið á eigin fótum. Auk þess hafi hún haft það markmið að engir tveir kettir séu nákvæmlega eins.

„Síðan bind ég stráin saman með línþræði og vef litríkum ullarþræði utan um kettina og þá loksins þurrka ég þá.“

Á ekki samleið með kertum

Hanna segir að hún muni klárlega notast við strá aftur í náinni framtíð. „Ég bý uppi í sveit og keyri alla morgna fram hjá svo mögnuðum stráum. Ég var alltaf að hugsa að ég þyrfti að gera eitthvað með þau,“ segir Hanna, sem stefnir á frekari vörutilraunir með strá á næstunni.

„Það er hægt að skera þau niður og nota eins og þráð. Það var gert í Sviss og bróderað með stráum. Á Íslandi voru þau til dæmis notuð í undirlag undir hnakka, í Skaftafellssýslu voru gerðar körfur úr melgresi. Mig klæjar í fingurna að gera meira með þeim.“Stráin ættu að endast í langan tíma „Stráin eru sterkari en ég hélt og þurr geta þau enst mjög lengi.“

Hanna ræður fólki þó frá því að hoppa á jólakettinum. Hann er of viðkvæmur til þess en honum fylgir góður kassi sem hægt er að geyma hann í milli ára „Svo er bara að halda honum frá kertum.“