Pláss er fyrsta málverkasýning Elínar Elísabetar Einarsdóttur. Hún hefur fengið pláss í Gallery Porti við Laugaveg 23b og verður opnuð 16. mars klukkan 16. Titillinn vísar til myndefnisins á sýningunni, stórra kvenna sem taka óhræddar sitt pláss. Hún segir hugmyndina hafa kviknað úti í Bandaríkjunum. „Ég fór í vinnusmiðju hjá landslagsmálara í Haystack Mountain School of Crafts sumarið 2017 og konurnar mínar fæddust út úr landslaginu á afskekktri eyju í Maine, þar sem ljósbleikar, veðraðar klappir minna á læri og fleiri líkamsparta. Konurnar eru á stórum skala en búa yfir mýkt, kvenleika og styrk og eru svar við þeirri úreltu kröfu samfélagsins að konur eigi að vera fíngerðar og þægar.“

Athygli vekur að höfuð kvennanna eru pínulítil. Veikir það þær ekki sem vitsmunaverur?

„Nei, alls ekki. Það er bara partur af því að ýkja hvað líkaminn er stór. Þær eru klárar og njóta þess að breiða úr sér í öllum skilningi. Eiga eftir að taka yfir.“

Elín Elísabet útskrifaðist úr teiknideild Myndlistaskólans í Reykjavík og hefur á síðustu árum vakið athygli fyrir verk sín, þar á meðal myndasögur í The Reykjavík Grapevine. „Ég hef unnið sjálfstætt sem teiknari í bráðum þrjú ár, myndskreytt bækur, gert veggmyndir og bókakápur, plaköt og landakort fyrir túrista. Þetta er fjölbreytt starf sem hefur haldið áhuga mínum vakandi,“ lýsir Elín sem hefur haldið sýningar á teikningum sínum, meira að segja á jafnólíkum stöðum sem á Borgarfirði eystra og í Senegal. „Ég vann í fiski á Borgarfirði eystra á sumrin í sjö ár og fannst það áhugavert, síðar ferðaðist ég þar um, teiknaði staði, fjöll og fólk og gaf myndirnar út í bók. Fyrir tveimur árum var ég svo í gestaíbúð í smáþorpi í Senegal í mánuð og teiknaði líka hversdagsleikann þar. Þorpið var lengst úti í sveit, með útibrunnum og moldarkofum og lífsskilyrðin ólík þeim sem við erum vön. Ég gæti hugsað mér að safna teikningum af þorpum víða um heim og gefa út í bók einhvern tíma sem heildarsafn, það er langtímadraumur.“