Grammy-verðlaunahátíðin fór fram í Los Angeles í nótt og var mikið um dýrðir á hátíðinni sem haldin var í 65. skiptið. Beyoncé, Harry Styles og Kendrick Lamar voru sigurvegarar hátíðarinnar og náði Beyoncé sérstaklega merkum áfanga.
Beyoncé var tilnefnd í átta flokkum og vann hún til fjögurra verðlauna, meðal annars fyrir bestu dans/rafplötu ársins. Þá var lag hennar, Cuff It, valið besta R&B-lagið.
Beyoncé er nú orðin sigursælasti tónlistarmaður í sögu Grammy-verðlaunanna en hún hefur nú unnið til 32 verðlauna í sögu hátíðarinnar. Fór hún fram úr tónskáldinu Georg Salti sem átti metið lengi vel.
Plata Harry Styles, Harry‘s House, var valin plata ársins og þá var lag Lizzo, About Damn Time, valið lag ársins. Kendrick Lamar vann til þriggja verðlauna á hátíðinni, meðal annars fyrir bestu rappplötuna og besta rapplagið, The Heart Part 5.
Viola Davis varð í gærkvöldi átjánda manneskjan til að vinna Emmy-, Grammy-, Óskars- og Tony-verðlaun og varð hún þar með svokallaður EGOT-verðlaunahafi. Davis hlaut verðlaun fyrir hljóðbók sína, Oh my God!
Síðasta manneskjan til að verða EGOT-verðlaunahafi er Jennifer Hudson árið 2021 en meðal annarra EGOT-verðlaunahafa má nefna John Legend, Andrew Lloyd Webber, Whoopi Goldberg, Mel Brooks og Audrey Hepburn.
Björk Guðmundsdóttir var tilnefnd til verðlauna fyrir bestu plötu í flokki altnernative-tónlistar en hlaut ekki verðlaun að þessu sinni. Féllu verðlaunin í skaut bresku hljómsveitarinnar Wet Leg fyrir samnefnda plötu.
