Stór­tækar breytingar hafa verið gerðar á stiga­gjöf í Euro­vision söngva­keppninni fyrir næsta ár. Þetta kemur fram í til­kynningu frá Sam­bandi evrópskra sjón­varps­stöðva (EBU).

Stærsta breytingin er sú að nú munu einungis at­kvæði á­horf­enda gilda í undan­úr­slita­keppnum tveimur í að­draganda aðal­keppninnar, í stað þess að þær séu helmingaðar með at­kvæðum dóm­nefndar eins og verið hefur áður. At­kvæði dóm­nefnda verða notuð ef eitt­hvað kemur upp á í síma­at­kvæða­greiðslunni.

Allur heimurinn kýs

Þá mun allur heimurinn nú geta kosið í fyrsta sinn frá upp­hafi keppninnar. Hingað til hafa einungis þátt­töku­þjóðir getað kosið.

Mun sú at­kvæða­greiðsla fara fram í gegnum netið og munu þeir sem vilja kjósa þurfa að skrá kredit­kort frá sínu landi. Verður svo þessum stigum splæst saman og gefin saman líkt og um eina þjóð væri að ræða í úr­slitum og undan­úr­slitum keppninnar.