„Hafnarfjarðarhöfn er fyrsta höfnin á Íslandi til að bjóða viðskiptavinum sínum að tengjast öflugum háspennulandtengingum þar sem öll skip geta fengið rafmagn sem er í samræmi við rafmagnskerfi skipsins, en aflið er allt að 1,2 MW,“ segir Lúðvík Geirsson, hafnarstjóri í Hafnarfjarðarhöfn.

Í gær fór fyrsta tengingin fram, en þá var frystitogarinn Baldvin Njálsson GK 400 tengdur. Farþegaskipið Le Bellot, sem er í eigu franska fyrirtækisins Le Ponant, kemur svo til með að tengjast nýja kerfinu á morgun, sjómannadaginn,“ segir Lúðvík. „Það verður í fyrsta skipti sem skipið tengist landstraumi og jafnframt í fyrsta sinn sem farþegaskip tengist landstraumi hérlendis.“

Mikil jákvæð umhverfisáhrif

„Þessi landtenging getur haft víðtæk umhverfisáhrif, því hún gerir það að verkum að skip við bryggju þurfa ekki að brenna jarðefnaeldsneyti, en það er áætlað að um 14% af eldsneytisnotkuninni fari fram þar,“ segir Lúðvík. „Almennt eru skip ekki orðin tilbúin fyrir þessa tengingu, en kostnaðurinn við að gera þau tilbúin er ekki mjög mikill. Það er því vonandi að þetta breytist, sérstaklega þegar aðstaða í höfnum verður almennt þannig að skip geta tengst rafmagni sem hentar þeim.

Í sumar er gert ráð fyrir að Le Bellot komi um 10 sinnum til Hafnarfjarðarhafnar og það þýðir að það má gera ráð fyrir að þessi breyting minnki losun kolefnistvíildis um 14 tonn í heild,“ segir Lúðvík. „Auk þess dregur þetta úr losun köfnunarefnisoxíðs, svifryksagna og sótagna, ásamt því að minnka hávaða frá skipum verulega.“

Frystitogarinn Baldvin Njálsson GK 400 var tengdur nýja kerfinu í gær og á morgun verður farþegaskipið Le Bellot tengt, en það verður í fyrsta sinn sem farþegaskip tengist landstraumi hérlendis.

Fyrsti áfanginn í stærra verkefni

„Það eru komnar tvær háspennutengingar í Hafnarfjarðarhöfn, ein á Hvaleyrarbakka og önnur á Suðurbakka, en framkvæmdir við uppsetningu þeirra skiptust í tvennt, annars vegar háspennuhluta og hins vegar lágspennuhluta,“ útskýrir Lúðvík. „Eftir útboð var samið við fyrirtækið Orkuvirki, sem sá um framkvæmdir við uppsetninguna. Hönnun á háspennuhlutanum var í höndum Jóns Björns Bragasonar rafmagnstæknifræðings. Ríkiskaup annaðist útboðið á lágspennuhlutanum í samræmi við tæknilýsingu J2B ráðgjöf og Sætækni ehf. og samið var við norska fyrirtækið PSW Power and Automation.

Verkefnið hófst þegar hafnarstjórn samþykkti umhverfisstefnu og aðgerðaáætlun fyrir höfnina í lok ársins 2019, en undirbúningur hönnunar og framkvæmda hófst í maí 2020, svo þetta hefur tekið tvö ár,“ segir Lúðvík. „Þessi landtenging er fyrsti áfanginn í stærra verkefni þar sem byggðar verða upp frekari landtengingar í Hafnarfjarðarhöfn og Straumsvík. Kostnaðurinn við fyrsta áfangann nam um 240 milljónum króna en áætlað er að heildarkostnaðurinn verði um 600 milljónir króna.“

Skip geta nú tengst rafmagni í Hafnarfjarðarhöfn og fengið rafmagn sem er í samræmi við rafmagnskerfi skipsins, en aflið er allt að 1,2 MW.

Mikið að gerast á sjómannadaginn

„Það verður mikið um að vera við Flensborgarhöfn á sjómannadaginn, en dagskráin stendur yfir frá því klukkan átta um morguninn til klukkan fimm seinnipartinn. Á heimasíðu Hafnarfjarðarhafnar er hægt að finna allar nánari upplýsingar um dagskrána, sem er mikil og fjölbreytt og hentar allri fjölskyldunni,“ segir Lúðvík.

„Hafrannsóknastofnun verður með fiskasýningu fyrir framan höfuðstöðvar sínar á Háabakka og þar verður líka opið hús. Það verður hægt að skoða bæði fiska og hryggleysingja, allt frá algengum nytjafiskum til sjaldséðra tegunda,“ segir Lúðvík. „Hafnarfjarðarhöfn býður líka upp á skemmtisiglingar, Björgunarsveit Hafnarfjarðar setur upp leiktæki, siglingaklúbburinn Þytur mun bjóða upp á kajaka og árabáta, það verður skemmtidagskrá og sterkasti maður Íslands verður krýndur í lok dags eftir aflraunakeppni.

Það verður líka ljósmyndasýning frá Byggðasafninu á Strandstígnum, sýning um tímabil erlendu útgerðanna í Bookless Bungalow, og í Siggubæ verður hægt að sjá sýnishorn frá heimili sjómanna í Hafnarfirði á fyrri hluta 20. aldar. Svo verður hægt að nálgast handverk og hönnun hafnfirskra listamanna í verslunum og listagalleríum við höfnina og njóta góðra veitinga á veitingastöðum og kaffihúsum í nágrenni hafnarinnar,“ segir Lúðvík.

„Við hvetjum því Hafnfirðinga og alla aðra til að gera sér ferð og njóta með okkur.“