Stórsveit Reykjavíkur stendur fyrir árlegu stórsveitamaraþoni í Hörpu í dag á alþjóðlegum degi djassins. Viðburðurinn hefur verið haldinn í yfir tuttugu ár með hléum.

„Hugmyndin er alltaf sú sama, það er að leiða saman allar stórsveitir landsins, eða sem flestar. Að þar sé ungt fólk og eldra fólk, áhugamenn og atvinnumenn og allur skalinn. Að þetta fólk geti hist og heyrt í hvoru öðru og þeir sem eru styttra komnir vonandi inspírer­ast af þeim sem eru lengra komnir,“ segir Sigurður Flosason, stjórnandi Stórsveitar Reykjavíkur og einn skipuleggjenda maraþonsins.

Að sögn Sigurðar hefur viðburðurinn lengi verið partur af útbreiðslu og uppeldisstefnu Stórsveitar Reykjavíkur sem er ein reynslumesta stórsveitin hér á landi.

„Við erum að reyna að láta gott af okkur leiða og gera eitthvað skemmtilegt. Svo er mismunandi ár frá ári hversu margar hjómsveitir eru með og hversu margar eru starfandi. Þær eru heldur færri nú en oft áður og ég hugsa að það séu Covid málin sem koma þar við sögu,“ segir Sigurður og bætir við að stundum séu hátt í tíu sveitir sem taka þátt.

Er ekki svolítið krefjandi að koma svona mörgum fjölmennum hljómsveitum saman?

„Nei, við erum nú með ágætis fyrirvara á þessu og hljómsveitirnar melda sig inn. Svo bara kemur hver hópur fyrir sig og sest í sömu sætin á svona hálftíma fresti og þetta gengur bara vel. Við erum á rúmu svæði í Flóa í Hörpu þar sem að er ágætt svæði baksviðs og áhorfendur geta komið og farið þannig þetta er svona óformlegur viðburður.“

Viðburðurinn fer fram í Flóa í Hörpu á milli 13 og 17. Aðgangur er ókeypis og geta áheyrendur komið og farið að vild. Þær sveitir sem koma fram eru Stórsveit Reykjavíkur, Stórsveit Íslands, Stórsveit Tónlistarskólans í Garðabæ, Stórsveit skólahljómsveita Reykjavíkurborgar og Stórsveit Sigrúnar/Bombastico.