Það er nóg að gera hjá Margot Robbie, sem  hefur nú  bæst í leikarahóp væntanlegrar myndar sérvitringsins Wes Anderson, en fyrr í mánuðinum var tilkynnt að Tom Hanks myndi í fyrsta skipti vinna með leikstjóranum.

Ekki liggur fyrir um hvað myndin verður, en tökur á henni hefjast á Spáni síðar í þessum mánuði.

Anderson hefur þá venju að sanka að sér einvalaliði leikara og meðal góðkunningja sem snúa aftur verða Tilda Swinton, Adrien Brody og Bill Murray.

Í október verður nýjasta mynd Andersons, The French Dispatch, frumsýnd í kvikmyndahúsum. Myndin er sögð vera hálfgert ástarbréf til blaðamanna, sem gerist á ritstjórnarútibúi bandarísks dagblaðs í franskri borg á tuttugustu öldinni. Þar koma saman þrjár sögur sem birtar voru í lokaútgáfu The French Dispatch tímaritinu. Myndin byggir á ást Andersons á The New Yorker og eru ýmsar persónur og atburðir myndarinnar byggðar á raunverulegu hliðstæðum, tengdum blaðinu.

The French Dispatch var sýnd í fyrsta skipti á Cannes kvikmyndahátíðinni og hefur fengið ágætis dóma frá gagnrýnendum