Hinn myndarlegasti storkur stoppaði við á skrifstofu fastanefndar Íslands hjá Evrópuráðinu í Strassborg í gær.

Í myndskeiði sem deilt var á Twitter-aðgangi þeirra má sjá fuglinn spássera um skrifstofuna og starfsmann segja við annan að koma ekki niður, fuglinn gæti upplifað sig umkringdan.

Í færslunni sem deilt var sagði að þar sem að fuglinn sýndi engan áhuga á því að yfirgefa skrifstofuna ætluðu þau að bjóða honum starfsnám.

Sakna hans strax

Í dag var svo sagt frá því að storkurinn hafi gist hjá þeim nótt, fengið að borða og sofið en hafi svo verið fjarlægður af viðeigandi yfirvöldum. Þau segjast sakna hans strax og að hann hafi líklega verið of ungur fyrir starfsnám.